Nýjustu Covid-19 tölurnar – fimmtudaginn 29. okt. 2020



Alls greindust 42 ný Covid-19 smit á landinu öllu í gær, þar af voru 22 í sóttkví. Heldur færri sýni voru tekin í gær en undanfarna daga.

Eitt nýtt Covid-19 smit greindust á Vesturlandi í gær samkvæmt tölfræði frá Lögreglunni á Vesturlandi.

Alls eru 22 í einangrun vegna Covid-19 smita á Vesturlandi og alls eru 55 í sóttkví. Á Akranesi eru 17 í einangrun vegna Covid-19.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að undanfarna daga hafi mátt rekja 140 smit til Landakotssmitsins. Þar af eru 90 tilfelli á Landakoti, 7 á Reykjalundi og 24 á Sólvöllum. Þórólfur segir að óbein smit séu 21 talsins og hann segir ástæðu til að hafa áhyggjur af því að þau smit fari að dreifast út í samfélagið.

Þórólfur segir ennfremur ekkert svigrúm til að slaka á aðgerðum innanlands vegna Covid-19 faraldursins. Hann ætlar að senda minnisblað til heilbrigðisráðherra síðar í dag og leggja til að herða aðgerðir enn frekar. Útfærsla einstakra tillagna er enn í smíðum.

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Þórólfur sagði að hertar aðgerðir þurfi ekki að standa lengur en í tvær til þrjár vikur, ef þróunin verður hagstæð. Að því loknu er svo ákveðin áætlun tilbúin hvernig slakað verður á aðgerðum.