Nokkur tilboð hafa borist í Suðurgötu 108 sem er í eigu Akraneskaupstaðar

Nokkur tilboð hafa borist í eignina við Suðurgötu 108 en húsið er í eigu Akraneskaupstaðar. Skiptar skoðanir eru í bæjarráði um þá ákvörðun að hætta við að rífa húsið og setja það í söluferli.

Í deiliskipulagi frá árinu 2017 var veitt heimild til þess að rífa húsið við Suðurgötu 108.

Suðurgata 108 hefur verið lengi til umræðu í „bæjarkerfinu“. Húsið hefur m.a. verið notað fyrir fundi AA samtakana og áhugaljósmyndafélagið Vitinn hefur einnig verið með aðstöðu í húsinu.

Á síðasta fundi bæjarráðs Akraness kom fram að tveir tilboðsgjafar hafi áhuga á eigninni. Hafa þeir lagt fram samtals þrjú tilboð en ekki er hægt að útiloka að fleiri tilboð berist. Tilboðsfrestur er til 3. nóvember en lágmarkstilboð í eignina þarf að vera 40 milljónir kr.

Meirihluti bæjarráðs samþykkti skilmála varðandi söluferlið á fundinum en fulltrúi Sjálfstæðisflokksins greiddi atkvæði gegn tillögunni og lagði fram eftirfarandi bókun.

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins áréttar fyrri afstöðu sína í málinu og er því mótfallin að húsið verði selt. Þykir bæjarfulltrúanum miður að ákvörðun um að rífa húsnæðið og úthluta lóðinni að nýju hafi verið snúið við af bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar og Framsókn og frjálsum.

Rakel Óskarsdóttir (sign)

http://localhost:8888/skagafrettir/2020/05/24/skiptar-skodanir-i-baejarradi-um-framtid-fasteignar-vid-sudurgotu-108/