Sigurður og Ásgeir fengu samfélagsverðlaun Akraneskaupstaðar 2020



Umhverfisviðurkenningar Akraneskaupstaðar fyrir árið 2020 voru afhentar nýverið en slíkar viðurkenningar eru árlegur viðburður. Einnig eru afhent sérstök samfélagsverðlaun. Þetta kemur fram á vef Akraneskaupstaðar.

Sigurður Arnar Sigurðsson og Ásgeir Guðmundur Sigurðsson fengu samfélagsverðlaun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2020.

Bræðurnir hafa á undanförnum árum verið iðnir við að taka þátt í hreinsun umhverfis í almenningsrýmum bæjarins og endurvinnslu um langt árabil.

„Þessi verðlaun komu okkur á óvart en við erum þakklátir og glaðir með þessa viðurkenningu,“ segir Sigurður í samtali við Skagafréttir í dag þegar Skagafréttir slógu á þráðinn til hans.

Sigurður var að sjálfsögðu úti að kanna aðstæður í daglegum hjólatúr sínum þegar hann svaraði símtalinu frá Skagafréttum.

„Ég byrjaði að hjóla um Akranes fyrir 25 árum. Markmiðið með þessum hjólatúrum var að fá hreyfingu og fá smá loft í lungun. Ég tók eftir því í þessum hjólatúrum að það var rusl og allskonar drasl út um allt í bænum. Ég setti því kerru á hjólið mitt og byrjaði síðan að hreinsa til þar sem ég fór um. Það sem ég tek upp eru smáhlutir og einnota umbúðir. Mér finnst þetta skemmtilegt – og vonandi geri ég eitthvað gagn fyrir bæinn okkar með þessum hjólatúrum,“ segir Sigurður.

Bræðurnir Ásgeir og Sigurður.

Á hverjum degi hjólar Sigurður á bilinu 8-10 km. og á aldarfjórðungi hefur hann lagt að baki marga tugi þúsunda kílómetra.

„Ég myndi giska á að ég hafi hjólað vel yfir 40.000 km. og líklega nærri 50.000 km. Það er ágætur hjólatúr. Fyrir tveimur árum fékk ég mér rafmagnshjól. Það er stundum smá rok hérna á Skaganum og þá er gott að hafa rafmagnið til að aðstoða við erfiðustu kaflana,“ segir Sigurður að lokum.

Það er skipulags- og umhverfisnefnd Akraneskaupstaðar sem hefur umsjón með verðlaununum og tekur ákvörðun um hverjir hljóta viðurkenningar hverju sinni í samráði við fagfólk.

Í dómnefnd á vegum ráðsins eru þau Helena Guttormsdóttir lektor LbhÍ, Sindri Birgisson umhverfisstjóri og Ása Katrín Bjarnadóttir Bs. í landslagsarkitektúr LbhÍ.

Nefndin fór í vettvangsferðir í júlí og tók út tilnefningar. Þau unnu m.a. með fagurfræði, fjölbreytileika og samtal við almenningsrými. Markmiðið var að vekja í víðum skilningi athygli á atriðum sem skipta uppbyggingu og framtíð bæjarins máli.

Í lok október fóru fulltrúar nefndarinnar víða um bæinn til að afhenda viðurkenningar – og fylgdi ráðið sóttvarnartilmælum í hvívetna. Ragnar B. Sæmundsson bæjarfulltrúi og formaður stýrði dagskrá, ásamt ráðsmönnunum Guðríði Sigurjónsdóttur og Ólafi Adolfssyni.

Viðurkenningarnar eru vandaður skjöldur, innrammað skjal og gjafabréf hjá Jóni Guðmundssyni garðyrkjumanni.