Líflegar umræður í bæjarstjórn um framtíðarhúsnæði Fjöliðjunnar


Bæjarstjórn Akraness samþykkti á síðasta fundi sínum tillögu starfshóps um framtíðarhúsnæði Fjöliðjunnar við Dalbraut 10.  Skiptar skoðanir eru um þessi áform í bæjarstjórninni. 

Sviðsmynd 1 í lokaskýrslu starfshóps um framtíðarhúsnæði Fjöliðjunnar fékk brautargengi. Atkvæðagreiðslan féll þannig að 5 fulltrúar meirihlutans greiddu atkvæði með þessari tillögu og 4 fulltrúar minnihlutans greiddu atkvæði gegn tillögunni. 

Sviðsmynd 1 gengur út á að núverandi húsnæði við Dalbraut 10, sem skemmdist mikið í eldi á síðasta ári, verði gert upp með nýrri viðbyggingu.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til við bæjarstjórn Akraness að fresta ákvörðun um val á leið við uppbyggingu á Fjöliðjunni. Sú tillaga var felld með 5 atkvæðum gegn 4. 

Að mati Sjálfstæðisflokksins gefur slíkur fresturinn tækifæri til ítarlegrar skoðunar á uppbyggingaráformum með hliðsjón af breyttu skipulagi á aðliggjandi lóðum og fari fram samhliða fjárhagsáætlanagerð fyrir árið 2021.

Þessi ákvörðun er ekki tekin af fljótfærn

Bára Daðadóttir lagði fram eftirfarandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra sem mynda meirihluta í bæjarstjórn Akraness. 

Undirritaðir, bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra, þakka starfshópi um uppbyggingu Fjöliðjunnar fyrir góða og faglega vinnu sem birtist í vandaðri skýrslu þar sem skýrir valkostir eru dregnir upp.

Það er mat starfshópsins að endurbygging núverandi húsnæðis og viðbygging samkvæmt fyrirliggjandi teikningu frá árinu 2007 sé góður kostur til að tryggja starfsemi Fjöliðjunnar fyrsta flokks húsnæði fyrir starfsemi hennar til framtíðar. Þetta álit starfshópsins leggjum við til grundvallar þeirri ákvörðun okkar að þessi leið verði farin við endurbyggingu húsnæðisins.

Nú liggur fyrir að starfsemi N1 muni í nánustu framtíð hverfa af aðliggjandi lóðum í nágrenni Fjöliðjunnar og fyrir bæjarstjórn liggur það verkefni að skipuleggja þetta svæði upp á nýtt. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að hefja nú þegar endurbyggingu húsnæðisins við Dalbraut 10 og halda jafnframt áfram með frekari hönnun aðliggjandi svæða þannig að þróun þessarar og tengdrar starfsemi haldist í hendur við frekari þróun á skipulagi reitsins.

Þessi ákvörðun er ekki tekin af fljótfærni eða í tímaskorti, heldur að vandlega yfirveguðu ráði eftir vandaða vinnu starfshópsins. Þá skal því haldið til haga að í uppistandandi byggingum liggja verðmæti og því væri það sóun á verðmætum að rífa núverandi hús og farga því, þegar hægt er að endurbyggja það með myndarlegum hætti.

Við teljum að með þessari ákvörðun fái Fjöliðjan, vinnu- og hæfingarstaður, gott og myndarlegt húsnæði undir starfsemi sína sem mæti öllum kröfum sem til slíkra starfsstöðva eru gerðar.

Greinargerð Sjálfstæðisflokksins:

Bruninn í Fjöliðjunni á Akranesi í maí á síðasta ári varð öllum íbúum bæjarins mikið áfall ekki síst þeim er þangað sóttu sína vinnu. Þar sem skemmdir af völdum brunans urðu miklar varð strax ljóst að grípa yrði skjótt til bráðabirgðaráðstafana svo tryggja mætti hið gefandi starf er þar fer fram. Það tókst og þá um leið skapaði bæjarstjórn sér nauðsynlegt andrými til þess að ákveða hvernig haga skyldi uppbyggingu á aðstöðu Fjöliðjunnar til framtíðar.

Fyrsta skref bæjarstjórnar var tekið í upphafi árs 2020, þegar hún tók einróma ákvörðun um að starfsemin yrði áfram á lóðinni að Dalbraut 10. Í kjölfarið var skipaður starfshópur sem átti samkvæmt erindisbréfi að skila mögulegum sviðsmyndum um uppbyggingu starfseminnar við Dalbraut. Samningar náðust á milli Akraneskaupstaðar og Festi hf. um framtíðarlóð undir starfsemi dótturfélags fyrirtækisins, N1 sem rekur bensínstöð og dekkjaverkstæði. Um leið losnuðu lóðir fyrirtækisins við Dalbraut og Þjóðbraut sem var hvalreki á fjörur starfshópsins í vinnuferlinu og opnaði á skipulag mun stærra svæðis og skapaði rými til þess að hýsa ýmsa tengda starfsemi Fjöliðjunnar eins og dósamóttöku og Búkollu nytjamarkaðar. Þá er ljóst að frístundaþjónusta fyrir fötluð börn og ungmenni þarf húsnæði sem hæfir betur þörfum þess hóps og er tækifæri til að hugsa þá starfsemi í nálægð við starfsemi Fjöliðjunnar.

Á fundi bæjarráðs þann 15. október sl. ákváðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra að uppbyggingu Fjöliðjunnar skyldi háttað á þá leið að rústir fyrra húss yrðu endurbyggðar og við það skeytt nýbyggingu samkvæmt teikningu frá árinu 2007. Þrátt fyrir að hús Fjöliðjunnar hafi á sínum tíma verið sérhannað til starfseminnar sem hófst árið 1989, hafa þarfir og aðstæður breyst umtalsvert á þeim 30 árum sem síðan eru liðin. Núna horfum við til næstu áratuga með uppbyggingu á aðstöðu þessarar mikilvægu starfsemi.

Fyrir bruna Fjöliðjunnar kom í ljós alvarlegur mygluvandi í húsnæðinu sem ekki hafði verið komist fyrir. Umfjöllun fjölmiðla á síðustu dögum um myglu í húsum ásamt þeim alvarlegu áhrifum sem hún getur haft á heilsu fólks og hversu erfitt hefur reynst að uppræta hana með viðgerðum, kallar á endurskoðun á því mati sem meirihluti bæjarráðs lagði til grundvallar sinni ákvörðun. Fjölmörg dæmi einstaklinga á Akranesi sem glímt hafa við veikindi vegna myglu tala einnig sínu máli.

Dæmin sanna að fyrirtæki og sveitarfélög hafa reynt að koma í veg fyrir að þessi vágestur lifi í húsakynnum þeirra en niðurstaðan leiðir oftar en ekki til niðurrifs. Þá hefur jafnvel verið kostað miklu til sem reynist glatað fé. Heilsa fólks er dýrmæt og verður ekki metin til fjár. Að hafa þessa vá yfirvofandi er óþarfa áhætta og að stefna viðkvæmum einstaklingum inn í mögulega ótryggt húsnæði er umhugsunarvert.

Horfum saman til framtíðar. Látum hanna og byggja nýtt húsnæði fyrir starfsemi Fjöliðjunnar. Húsnæði sem mætir öllum nútímakröfum sem gerðar eru til starfseminnar, mætir þörfum starfsmanna og væntingum skjólstæðinga nú og til lengri framtíðar. Horfum á ný tækifæri á stækkaðri lóð. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar, vilji er allt sem þarf.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýstu einnig yfir vonbrigðum með þá ákvörðun bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra að hafna tillögu um að fresta ákvörðun vegna uppbyggingar Fjöliðjunnar um fáeinar vikur og nýta þann tíma til að yfirfara betur þau gögn sem liggja fyrir og kunna að varða framtíðar heilsufar starfsmanna Fjöliðjunnar. Í ljósi þess að ekki liggur fyrir mat fagaðila á þeirri heilsuvá sem kann að verða fylgifiskur þess að endurnýta eldri byggingu Fjöliðjunnar stendur það upp á bæjarfulltrúa meirihlutans að svara þeirri spurningu af hverju starfsmenn Fjöliðjunnar vinnu- og hæfingarstað fá ekki að njóta vafans og að málið verði skoðað ofan í kjölinn.

http://localhost:8888/skagafrettir/2020/10/27/skiptar-skodanir-i-baejarradi-um-framtidarhusnaedi-fjolidjunnar-vid-dalbraut/