„Forréttindi að eiga alltaf fisk í frystikistunni“ – Veislufiskréttur Ingu Dóru slær alltaf í gegn


Það eru forréttindi að eiga alltaf fisk í frystikistunni – en maðurinn minn, Brynjólfur Jónsson, er sjómaður. Þegar stórfjölskyldan kemur saman þá verður þessi frábæri þorskréttur mjög oft fyrir valinum,“ segir Inga Dóra Jóhannsdóttir við Skagafréttir. Inga Dóra tók áskorun frá bróður sínum Ástþóri Vilmari í þessum nýja fréttaflokki sem tengist Heilsueflandi samfélagi á Akranesi.

Markmiðið með þessum fréttaflokki er að safna saman bragðgóðum, einföldum og hollum uppskriftum. Með tíð og tíma verður til staðar sarpur af góðum hugmyndum um notkun á hráefnum þar sem að hollusta og bragðgæði eru höfð að leiðarljósi.

Það er greinilegt að fiskur er í uppáhaldi hjá þeim systkinum. Ástþór Vilmar var einnig með fiskrétt á boðstólum – líkt og Inga Dóra.

Það vita flestir að fiskur hefur verið mikilvæg fæða á Íslandi frá upphafi byggðar og fáar þjóðir borða jafnmikinn fisk og við Íslendingar.

Neysla Íslendinga á fiski hefur samt sem áður minnkað á undanförnum árum. Ástþór Vilmar Jóhannsson vill stuðla að breytingum á því sviði með þessari frábæru uppskrift af steiktum fiski með súrsætri sósu.

Fiskur er ákjósanleg fæða fyrir margra hluta sakir. Má þar nefna að í fiski er gæðaprótein, neysla á fiski getur dregið úr offitu, fiskur er næringarrík fæða og tvímælalaust ein sú hollasta matvara sem völ er á. Fisk ættum við ekki að borða sjaldnar en 3 sinnum í viku.


Veislufiskréttur Ingu Dóru

250 gr af þorskhnökkum á mann.
½ banani á mann
1 laukur á mann
1 bolli hveiti eða gróft spelt
2-3 egg
Karrý eftir smekk
Herbamare eftir smekk
Pipar
Olía
Hýðis hrísgrjón.

Byrjið á að steikja laukinn og sjóða hýðis hrísgrjónin. Það tekur lengsta tímann. Hjá mér rétt dugir að hafa einn lauk á mann. En þið þekkið ykkar heimafólk með magn

  • Flysjið laukinn í þunnar sneiðar.
  • Setjið 50 gr smjör (fyrir þrjá lauka) og 1 msk af olíu og 2 tsk karrý á pönnu eða í pott.
  • Stillið helluna á lágan hita. Hjá mér eru sex stillingar og ég stilli á einn.
  • Hrærið smjörinu, olíunni og karrýinu saman, þar til að smjörið er bráðið og karrýið aðeins farið að brúnast.
  • Bætið lauknum út í og leyfið honum að malla á pönnunni í 50 mínútur þá verður hann fullkominn .
  • Hrærið í öðruhverju.
  • Sjóðið hýðis hrísgrjónin eftir leiðbeiningum á umbúðunum.

 Á meðan laukurinn kraumar á pönnunni og hýðis hrísgrjónin sjóða í pottinum  er fiskurinn, bananarnir og sósan  útbúin.

Næst eru það þorskhanakkarnir

Aðferð:

  • Skerið þorskhnakkana í hæfilega stóra bita. Hver biti hjá mér er 8 – 10 cm.
  • 1 bolli gróft spelt sett í skál.
  • 2 stk egg sett í aðra skál 1 tsk salt og pipar hrært saman með gaffli.
  • 100 g smjör, 2 msk olía og 3 tsk karrý sett á pönnuna og brætt.
  • Veltið fiskinum fyrst upp úr egginu og síðan upp úr speltinu eða hveiti.
  • Setjið fiskinn á pönnuna og steikið í ca þrjár- fjórar  mínútur á hvorri hlið
  • Síðast eru bananarnir steiktir notið sömu pönnu og laukurinn er steiktur á þá kemur smá laukbragð af bönunum.

Aðferð:

  • Skerið bananann í sneiðar.
  • Ca 50 g smjör + 1 msk olía og 1 msk karrý sett á pönnuna og brætt saman við lágan hita.
  • Bananarnir steiktir þar til þeir eru farnir að taka aðeins lit.

Köld karrýsósa:

  • 1 dós sýrður rjómi ég nota 10%
  • 1 msk karrý
  • 1 msk lífrænt hunang
  • 1- 2 tsk lífrænt sinnep
  • Maldon salt
  • pipar

 Aðferð:

Allt hráefnið sett í skál og hrært saman.

http://localhost:8888/skagafrettir/2020/09/04/kjuklinga-pad-krapow-er-vinsaell-rettur-a-heimili-saevars-freys/
http://localhost:8888/skagafrettir/2020/10/02/hollur-fiskrettur-astthors-nytur-vinsaelda-a-heimilinu-hollasta-matvara-sem-vol-er-a/