TM lokar útibúinu á Akranesi – Ingþór er þakklátur fyrir samstarfið

Tryggingafyrirtækið TM lokaði um s.l. áramót útibúi sínu sem hefur verið í versluninni Omnis undanfarin 6 ár. Þetta kemur fram í færslu sem Ingþór Bergmann Þórhallsson eigandi Omnis Verslun birti nýverið.

Á Akranesi er því aðeins eitt tryggingafyrirtæki með útibú opið á Akranesi en VÍS lokaði útibúinu á Akranesi í september 2018. Sjóvá er því eina tryggingafyrirtækið sem er með útibú á Akranesi.

Ingþór segir að hann sé þakklátur fyrir þann tíma sem TM var með Omnis Verslun.

„Án þeirra aðkomu s.l. 6 ár væri engin Omnis Verslun. TM er flott fyrirtæki og er til fyrirmyndar í því sem það starfar við,“ segir Ingþór og vekur athygli á því að sú þróun sem eigi sér stað í stafrænni þjónustu fyrirtækja leiði af sér lokun útibúa á borð við TM á Akranesi.

Þróunin hjá fyrirtækjum af þessu tagi er og verður í þessa átt. Viðskiptavinir eru færðir smá saman í stafræna þjónustu og persónuleg tengsl og velvild víkur fyrir stöðluðum og kerfisbundnum persónu upplýsingum. Það er margt gott við þessa þróun en það er líka margt slæmt, eins og að loka umboðinu hér á Akranesi.

Ég get viðurkennt það núna að maður var búin að sjá þetta fyrir og átti svo sem von á að þetta gerðist fyrr. TM er til fyrirmyndar í því sem það starfar við. Það sinnir viðskiptavinum sínum vel og er til staðar þegar mest á reynir. Hjá TM starfar frábært fólk sem hefur verið gott að kynnast og ef ekki sé minnst á hóp þeirra viðskiptavina sem hafa lagt leið sína í útibúið hér á Akranesi,“ skrifar Ingþór m.a á fésbókarsíðu sína.