Kristjana Helga nýr deildarstjóri fjármála hjá Akraneskaupstað

Kristjana Helga Ólafsdóttir er nýr deildarstjóri fjármála hjá Akraneskaupstað. Ráðningin er hluti af þeim viðamiklu stjórnkerfisbreytingum sem tóku gildi þann 1. janúar hjá Akraneskaupstað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akraneskaupstað.

Stjórnkerfisbreytingarnar höfðu í för með sér endurskipulagningu og um leið styrkingum innan fjármáladeildar kaupstaðarins.

Helstu breytingar þar voru að Steinar Adolfsson sviðsstjóri stjónsýslu- og fjármálasviðs hefur tekið við auknu hlutverki innan deildarinnar þar sem starf fjármálastjóra var lagt niður og einnig hefur Kristjana Helga Ólafsdóttir verkefnastjóri innan fjármáladeildar tekið við nýrri stöðu deildarstjóra fjármála og fengið aukið hlutverk við stærstu verkefni kaupstaðarins eins og ársreikningsgerð og fjárhagsáætlun.

Kristjana Helga hefur unnið hjá Akraneskaupstað í rúmlega tvö ár og hefur þar að auki víðtæka og farsæla reynslu í fjármálum sveitarfélaga. Kristjana Helga er viðskiptafræðingur að mennt og með viðbótardiplómu í opinberri stjórnsýslu. Einnig var samþykkt að ráða inn verkefnastjóra í deildina sem myndi m.a. hafa það hlutverk að styðja við hagstæðari innkaup og greiningar og nýtast vel heildarstarfsemi kaupstaðarins. – segir í tilkynningunni.