Áhöfnin á Akurey fiskar vel – lönduðu 180 tonnum af þorski í síðustu viku

Eiríkur Jónsson skipstjóri á Akurey AK og áhöfn hans fengu mikinn afla af þorski á dögunum – en frá þessu er greint á vef Brims.

Ísfisktogarinn er kom til hafnar um miðja síðustu viku með um 180 tonna afla. Eiríkur segir í viðtali á heimasíðu Brims að góð veiði hafi verið víða en Akurey fékk megnið af aflanum í Víkurálnum svokallaða.

,,Við hófum veiðar í þessum túr á utanverðu Látragrunni og þaðan unnum við okkur norður með kantinum. Við fengum mokveiði af þorski á horninu vestast í Víkurálnum. Þetta var stór og góður fiskur, fjögurra til fimm kílóa, og með þorsknum fengum við dálítið af ýsu og ufsa,” segir Eiríkur en hann segir að lítið hafi verið af loðnu í fisknum á Vestfjarðamiðum.

Eiríkur Jónsson skipstjóri á Akurey. Mynd/Brim.is

,,Við fórum síðan suður á Reykjanesgrunn en þar höfðu togarar verið í góðri ufsaveiði. Síðan vörðum við síðustu tæpu tveimur dögunum í Skerjadjúpinu. Þar fengum við ágætan djúpkarfaafla í síðustu tveimur birtingunum. Þá var túrinn búinn og það vantaði ekki nema nokkur kör upp á fullfermi.”

Akurey var með rúmlega 6.000 tonna afla á síðasta ári og Eiríkur segist ekki annað geta en verið ánægður með árangurinn.

,,Frátafir frá veiðum voru miklar. Við vorum um tíu daga frá vegna bilunar í stýri í upphafi ársins og svo bættust tveir mánuðir við á meðan verið var að setja niður þriðju togvinduna. Það er framkvæmd sem á eftir að borga sig. Það er ekki bara í tregveiði sem tvö troll, sem veitt er í einu, hafa sannað sig. Ég get nefnt karfaveiðar sem dæmi. Þar er himinn og haf á milli þess að nota eitt eða tvö troll samtímis. Fyrir þessa breytingu hefði mátt þakka fyrir fjögur til fimm tonn af djúpkarfa á dag en núna getum við tvöfaldað þann afla,” segir Eiríkur Jónsson.