Lýsa yfir miklum vonbrigðum með gjaldtöku

Félag eldri borgara á Akranesi sendi á dögunum áskorun til bæjarstjórnar Akraness þar sem að félagið lýsir yfir miklum vonbrigðum með gjaldtöku fyrir eldri borgara í sundmannvirki Akraneskaupstaðar. Í byrjun ársins 2021 var þessi gjaldtaka sett og í erindi FEBAN er skorað á bæjarfulltrúa að endurmeta stöðuna og fella strax niður þessa gjaldtöku.

Í áskorun FEBAN kemur einnig fram að með þessari aðgerð sé afnumin mikilvægur stuðningur bæjarins í að viðhalda og bæta líkamlega og andlega heilsu margra.

Áskorun FEBAN er hér fyrir neðan í heild sinni:

Við hefðum gjarnan viljað að erindi nýs árs væri skemmtilegra en það sem hér um ræðir. 
Umræðan um þessa gjaldtöku hefur væntanlega ekki farið framhjá bæjarfulltrúum Akraneskaupstaðar.  
Málið er okkur skylt og margir hafa komið til okkar til að lýsa yfir óánægju sinni með þessa ákvörðun. Þar með er afnumin mikilvægur stuðningur bæjarsins í að viðhalda og bæta líkamlega og andlega heilsu margra. 
Marga í okkar hópi munar um hverja krónu. Nú er Akraneskaupstaður í samstarfsverkefninu „Heilsueflandi samfélag“. Þessi ákvörðun skýtur skökku við í því samhengi. Allir eru sammála um að bætt heilsa og líðan er ómetanleg til fjár en andstæðan er kostnaðarauki bæði á einstaklinga og samfélagið. Spyrja má hver er ávinningurinn af þessari ákvörðun í krónum talið? Hvers vegna ákveður bæjarstjórn Akraness að hefja gjaldtöku þegar Borgarbyggð er að leggja hana af og önnur bæjarfélög svo sem Mosfellsbær, Hafnarfjörður, Árborg og mörg önnur bæjarfélög ákveða að styðja sína eldri borgara áfram með því að veita þeim gjaldfrían aðgang að sundstöðum og jafnvel þreksölum. 
Þessi ákvörðun kom illa við þá sem stunda sundstaði bæjarsins. Þeir mættu á nýju ári fullir bjartsýni með hækkandi sól. Þá er þeim tilkynnt að þeir eigi að borga. Það er ekki vel gert.  
Á s.l. ári voru 2 bæjarfélög á Íslandi réttu megin við strikið í fjárhagsstöðu samkvæmt fréttum. Akranes er annað þeirra. Það voru góðar fréttir. Hvað rekur bæinn til að sækja pening í vasa okkar félaga?
Stjórn FEBAn lýsir yfir miklum vonbrigðum með þá afstöðu sem fram kemur með þessari ákvörðun og skorar á bæjarfulltrúa að endurmeta stöðuna og fella strax niður þessa gjaldtöku.