Félagar úr Björgunarfélagi Akraness á vaktinni við gosið á Reykjanesi

Félagar úr Björgunarfélagi Akraness hafa staðið vaktina við gosstöðvarnar á Reykjanesi undanfarna daga.

Gríðarleg umferð hefur verið af fólki á þessu svæði frá því að gosið hófst í Geldingadal rétt við Grindavík s.l. föstudag. Valdmundur Árnason segir í viðtali við RÚV að hættuleg gasmengun sé á svæðinu og að gasið leyni á sér.

„Gasið leynir á sér, liggur í hvilftum og holum. Fólk dettur bara niður ef það lendir í svona pollum. Við fundum fyrir gasinu og þurftum að hverfa úr einni hvilft með hraði,“ segir Valmundur m.a. í viðtalinu sem má sjá á vef RÚV. Samúel Þorsteinsson og Sigurður Ingi Grétarsson voru með í för á svæðinu með Valmundi við leitarstörf aðfaranótt sunnudags – við erfiðar aðstæður eins og fram kemur í viðtalinu sem er hér fyrir neðan.