Vel á þriðja hundrað einstaklingar fengu bóluefni gegn Covid-19 á Akranesi í gær

Alls voru 240 einstaklingar bólusettir á Akranesi gegn Covid-19 í gær, miðvikudaginn 31.mars. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilsugæslunnar á Akranesi. Bólusetningin fór fram í Gamla Iðnskólanum við Skólabraut.

„Allt gekk ljómandi vel og viljum við hrósa Akurnesingum fyrir góða þátttöku. Nú ættu því allir fæddir 1947 og fyrr að hafa fengið boð um að koma í bólusetningu. Ef einhver hefur orðið útundan og ekki fengið boð og er búsettur í póstnúmeri 300 eða 301 má hann hafa samband við heilsugæsluna eftir páska og við bætum úr því.

Næsti bólusetningadagur verður miðvikudagurinn 14.04 og þá boðum við áfram í aldursröð ásamt þeim sem koma í seinni bólusetningu. Stefnum að því að bólusetja í íþróttahúsinu á Jaðarsbökkum í þetta skiptið“ segir í tilkynningu frá starfsfólki heilsugæslunnar á Akranesi.