Það eru nokkur heimsmet í frjálsíþróttum sem verða seint bætt og hér verður stiklað á stóru í þeim efnum.
Spjótkast karla:
Jan Selezny frá Tékklandi kastaði spjótinu 98,48 metra þann 25. maí árið 1996 í bænum Jena í Þýskalandi. Metið hefur frá þeim tíma aldrei verið í hættu. Finninn Aki Parviainen á næst lengsta kast sögunnar sem er 93.09 metrar.
3000 metra hlaup, karlar:
Daniel Komen var aðeins tvítugur þegar hann setti heimsmet í 3.000 metra hlaupi í Rieti á Ítalíu 1. september árið 1996. Þessi keppnisgrein er ekki ein af þeim greinum sem eru á dagskrá á HM í Peking. Komen hljóp vegalengdina á 7.20,67 mínútum. Sá sem hefur komist næst þessum tíma er Hicham El Guerrouj frá Marokkó sem var tveimur og hálfri sekúndu frá heimsmetinu árið 1999. Guerrouj á heimsmetið í 1.500 metra hlaupi, og hann er fyrrum ÓL-meistari í 5.000 metra hlaupi.
100 metra hlaup, karla:
Usain Bolt frá Jamaíku á heimsmetið í 100 m., og 200 m. hlaupi karla. Fyrra metið er óhugnalega gott og er 11/100 úr sekúndu betri tími en hjá þeim sem næstir koma í röðinni. Bolt hljóp á 9,58 sekúndum á HM árið 2009. Tyson Gay og Yohan Blake hafa báðir hlaupið á 9,69 sekúndum en þeir hafa báðir fallið á lyfjapróf og tekið út sína refsingu með keppnisbanni. Bolt á heimsmetið í 200 metra hlaupi sem er 19,19 sekúndur en það setti hann einnig á HM árið 2009.
100 metra og 200 metra hlaup, kvenna:
Florence Griffith Joyner á enn heimsmetin sem hún setti í þessum greinum árið 1988 eða fyrir 27 árum. 10,74 sekúndur í 100 metra hlaupi og 21,98 sekúndur í 200 metra hlaupi. Griffith Joyner lést langt fyrir aldur fram úr hjartaáfalli árið 1998 aðeins 38 ára gömul.
Marion Jones , sem var á sínum tíma fremst í heimi í spretthlaupum kvenna, náði „aðeins“ 10,65 sek. í 100 metra hlaupi þegar hún var upp á sitt besta. Jones var síðar þekktust fyrir að hafa notað ólögleg lyf til þess að bæta árangur sinn um margra ára skeið. Bestu tímar ársins í 100 m., og 200 m. hlaupi kvenna eru 10,74 sek., og 21,98 sek.
Kringlukast kvenna:
Árið 1988 eða fyrir 27 árum setti Gabriele Reinschs frá Austur-Þýskalandi heimsmet í kringlukasti kvenna – sem stendur enn. Reinschs fleygði kringlunni 76,80 metra og það met hefur ekki verið í hættu frá þeim tíma. Kringlan sem notuð er hjá konum er 1 kg. og besti árangur þeirra sem keppa í dag dugir rétt til þess að komast á topp 20 listann yfir lengst köst sögunnar í þessari grein. Sandra Perkovic frá Serbíu var 5,72 metrum frá heimsmetinu í keppni árið 2014 og er það eina kastið sem hefur komist inn á topp 20 listann á þessari öld. Sautján lengstu köst sögunnar í kringlukasti kvenna eru öll frá áttunda áratug síðustu aldar.
10.000 metra hlaup, konur:
Fyrir rétt rúmlega tveimur áratugum komu sterkir kínverskir keppendur í þessari grein í kvennaflokki. Junxia Wang setti heimsmet í 10.000 metra hlaupi sem verður seint slegið. Hún kom í mark á tímanum 29.39,78 mínútum sem er 22 sekúndum betri tími en sú sem er næst í röðinni í þessari grein. Það eru tvær sekúndur á hvern kílómetra. Metið var áður í eigu Ingrid Kristiansen frá Noregi sem hún setti árið 1986, 30.13,74 mín. Wang bætti því heimsmetið um 42 sekúndur þegar hún setti metið árið 1993 á kínverska meistaramótinu.
400 metra hlaup, konur:
Marita Koch frá Austur-Þýskalandi á heimsmetið í þessari grein semhún setti í október árið 1985 eða fyrir þrjátíu árum. Hún hljóp vegalengdina á 47,60 sekúndum og þetta met hefur ekki verið í neinni hættu frá þeim tíma.
800 metra hlaup, konur:
Jarmila Kratochvílová sem keppti fyrir Tékkóslavakíu á sínum tíma setti ótrúlegt met í þessari grein árið 1983 eða fyrir rúmlega þremur áratugum. Kratochvílová kom í mark á 1.53,28 mínútum og hefur þetta met staðist tímans tönn – svo ekki sé meira sagt.