Þóra Beta og Ronja hreinsa upp ruslið á gönguferðunum

Þóra Elísabet Hallgrímsdóttir fékk viðurkenningu frá Akraneskaupstað

„Það er ekki bara ég sem er að týna upp rusl og halda bænum hreinum. Það eru margir aðrir sem taka til hendinni og taka upp ruslið sem er víða í bænum,“ sagði Þóra Elísabet Hallgrímsdóttir við skagafrettir.is.

Þóra Beta fékk á dögunum samfélagsverðlaun og viðurkenningu frá Akraneskaupstaðar fyrir framúrskarandi elju og þrautseigju þegar kemur að snyrtingu bæjarins og segir í umsögn ráðsins að hún sé ,,sannarlega íbúum Akraness til fyrirmyndar“

Þóra Beta er sannarlega íbúum Akraness til fyrirmyndar

Þóra Beta hætti að vinna fyrir fimm árum en hún var lengi í aðalhlutverki í versluninni Óðinn við Kirkjubrautina en hún starfaði í mörg ár í Útilíf í Reykjavík. Á hverjum degi fer Þóra Beta út að ganga með hundinn Ronju sem Valdimar Kr. Sigurðsson sonur Þóru Betu og Lilja Þorsteinsdóttir tengdadóttir Þóru Betu eiga.

„Við Ronja förum út á hverjum einasta degi og við erum í um klukkstund á göngu, Við förum mikið sömu leiðina, meðfram Langasandi og niður að höfn og víðar, og ég hef týnt upp rusl á þessum gönguferðum. Það er bara eins og það er með þetta eins og annað, sumir eru til fyrirmyndar en aðrir ekki.“

Þóra Beta tekur þátt í starfi FEBAN á Akranesi, sem er félag eldri borgara. „Ég fer í kaffi þegar það eru boccia æfingar og ég horfi bara á og drekk kaffi og spjalla. Ég tek ekki þátt í boccia sjálf. Við höfum alveg nóg fyrir stafni í öllu því sem er í boði,“ bætti Þóra Beta við.

Við hér á skagafrettir.is óskum Þóru Betu til hamingju með viðurkenninguna en óskum líka eftir aðstoð frá ykkur lesendur góðir að aðalpersónan sjái þetta viðtal. „Ég á ekki einu sinni tölvu og nota ekki slíkt,“ sagði Þóra Beta létt í bragði að lokum.