Orri Harðar: „Dásamlegt persónugallerí á Skaganum“

Viðtal við rithöfundinn og Skagamanninn Orra Harðarson

Rithöfundurinn Orri Harðarson hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli fyrir skáldsögur sínar. Skagamaðurinn, sem ólst upp í Hjarðarholtinu og síðar á Vogabrautinni, sendi nýverið frá sér bókina Endurfundir og eru án efa margir sem tengjast Akranesi spenntir að lesa nýjustu skáldsöguna frá Orra Harðar.

„Kannski er það til marks um hversu langt er síðan ég flutti frá Akranesi að gælunafnið „Flórída-Skaginn“ skuli trufla mann. Það var í öllu falli ekki til þegar ég ólst þarna upp. Og nú hljómar maður náttúrlega eins og aldraður íhaldsskarfur.,“ segir Orri þegar hann er inntur eftir því hvar hann hafi alið manninn frá því hann flutti frá Akranesi.

„En gott og vel; mér þykir allavega óskaplega vænt um rigninguna og rokið. Á flestar mínar bestu minningar með slíka veðráttu í bakgrunninum. Annars er ekkert svo langt síðan ég bjó síðast á Skaganum. Var þar í nokkra mánuði fyrir einhverjum tólf árum síðan. En það var samt löngu fyrr sem ég reyndi fyrst að flytja að heiman; árið 1991, þá innan við tvítugt. Svo þurfti maður nokkrar tilraunir áður en það tókst almennilega. Ætli ég hafi ekki bara verið svolítið brothættur og jafnvel týndur á köflum; nánast eins og ófleygur ungi sem dreif ekki almennilega úr hreiðrinu. Maður sneri allavega nokkrum sinnum heim í foreldrahús, með skottið milli lappanna. En það er allar líkur á að þetta haldi núna. Allmörg ár síðan ég náði tilvistarlegu stabíliteti, með eiginkonu, börnum og öðru tilheyrandi. Auknum þroska, ekki síst.

Mér þykir allavega óskaplega vænt um rigninguna og rokið. Á flestar mínar bestu minningar með slíka veðráttu í bakgrunninum

Annars hef ég bara verið að bedrífa nokkurn veginn það sama og á Skagaárunum; að leitast við að helga mig listinni. Sem fyrri daginn þarf maður reyndar stundum að gera fleira en gott þykir. Sinna öðru en eigin listsköpun. Á Skaganum í gamla daga gerði maður það stundum Í HB og kó, Slippnum eða Olís, en hin síðari ár hefur þetta aðallega falist í aðkomu að annarra manna list. Og það er í sjálfu sér forréttindi. Þannig hafði ég hljóðversvinnu alllengi að aðalstarfi; ég stýrði upptökum, útsetti, hljóðblandaði, lék á hljóðfæri og svo framvegis. Síðar komu margvísleg ritstörf inn í myndina; þýðingar, yfirlestur og fleira tengt bókaútgáfu. Þannig að þótt aðeins liggi eftir mig einhverjar fimm sólóplötur og þrjár bækur þá hlaupa þær plötur og bókmenntir á fleiri tugum sem ég hef með einhverjum hætti komið að um dagana. Þorskflökin eru nú samt fleiri. Og bensínlokin.“
Orri var snemma bókhneigður og las mikið á yngri árum – allt nema námsbækurnar. Það hafi hinsvegar ekki verið markmiðið að leggja ritstörf fyrir sig.

„Ég varð snemma mjög bókhneigður, já; og las óskaplega mikið fram undir tvítugt, eiginlega allt nema blessaðar námsbækurnar. Það var einhver uppreisn í mér gagnvart þeim; ég hafði tendens til að vilja uppgötva allt sjálfur. Og þannig var ég jafnvel búinn að lesa sumt á grunnskólaárunum sem síðar var sett fyrir í framhaldsskóla. Annað úr FVA geymdi ég mér svo jafnvel til seinni tíma þegar mér var ekki lengur uppálagt að leggjast yfir það. Svona var maður nú einkennilegur. Sjálfsagt einhver mótþróaröskun; ég veit það ekki. En nei, ég get ekki sagt að það hafi nokkru sinni hvarflað að mér á þessum tíma að verða rithöfundur. Sú hugmynd læddist eiginlega bara aftan að mér á fertugsaldrinum, svona eftir því sem ég starfaði meira innan þess geira fyrir aðra. Músíkin var alltaf í fyrsta sæti. Fimm ára gamall gaf ég það beinlínis út við foreldra mína að hún yrði minn starfsvettvangur í framtíðinni. Og þar við sat svona nokkurn veginn fram undir fertugt.“

 

Ég varð snemma mjög bókhneigður, já; og las óskaplega mikið fram undir tvítugt, eiginlega allt nema blessaðar námsbækurnar

Nýja skáldsagan þín, Endurfundir, gerist á Akranesi árið 1991. Er hægt að finna raunverulegar persónur í sögunni? Fólk sem var og er kannski enn á Skaganum?

„Já og nei. Sögusviðið er auðvitað raunverulegt; Skaginn eins og ég man hann vel fyrir aldamótin síðustu, með Fólksbílastöðinni, frystihúsunum, vídeóleigunum, Boggunni og fleiru. Litríkir karakterar eru óneitanlega hluti af þeirri bæjarmynd og mér fannst ómögulegt annað en brúka þá eitthvað. Þeir þjóna líka sumpart æðri tilgangi því í sögunni dreg ég öðrum þræði fram ákveðinn samfélagsmóral sem var kannski ekki alltaf til eftirbreytni. Viðurnefni geta vissulega verið skemmtileg en uppnefni eru það síður, að minnsta kosti fyrir þann sem fyrir slíku verður. Og stundum eru mörkin óljós. Þannig getur eitthvað sem átti í upphafi að vera græskulaust grín orðið hreinasta martröð fyrir viðkomandi. Menn markerast jafnvel fyrir lífstíð. Verða aðhlátursefni. Og jú jú, þarna er jafnvel lauslega byggt á einhverjum sem maður man eftir; jafnan þó þannig að minning um tvo eða þrjá renna saman í einn. Annars eru flestir uppdiktaðir frá grunni. Og helstu karakterar sögunnar – aðalpersónan, fjölskylda hans og kærustur – eru alfarið skáldaðir, þótt eitthvað úr eðli eða reynslu skapara þeirra dúkki kannski á stöku stað upp, rétt eins og í síðustu bók. Höfundar komast víst aldrei alveg hjá því að hitta sjálfa sig fyrir.“

Orri Harðarson

Fyrsta skáldverkið þitt, Stundarfró, fékk frábærar viðtökur. Var á einhvern hátt öðruvísi eða erfiðara að takast á við að semja Endurfundi?

„Nokkrum árum fyrir Stundarfró hafði ég reyndar ritað bók um samfélagsmál og vissi því að mér reyndist frekar auðvelt að skrifa. En skáldsaga er vitaskuld annað og stærra mál. Margir fínir pennar hafa aldrei náð utan um slíkt. Og ég renndi í sjálfu sér alveg blint í sjóinn með Stundarfró. Vissi ekkert hvað ég var að fara út í. Fann bara hjá mér þessa löngun til að reyna mig við formið og það kom ánægjulega á óvart hversu vel það gekk. Ég skemmti mér raunar konunglega við skrifin og rakst satt að segja aldrei á neinar hindranir. Þetta flæddi tiltölulega átakalaust áfram. Þá hjálpaði eflaust að ég hafði í sjálfu sér litlar væntingar um viðtökur; var fyrst og fremst að skemmta sjálfum mér. En svo þegar bókin kom út og viðtökurnar urðu svona sallafínar þá varð maður auðvitað meðvitaðri um næstu skref. Og kannski má segja að ég hafi verið svolítið krítískari á sjálfan mig meðan ég skrifaði Endurfundi. Að því leytinu til var þetta öðruvísi. Ég efaðist meira um allt sem ég gerði. En það er í raun bara heilbrigðismerki. Og Endurfundir urðu í sjálfu sér ekkert erfiðari en Stundarfró þótt ég hafi ekki verið lengur í þessari nýjabrumskátínu.“

Á Skaganum hafa margir snillingar átt heima. Varstu oft að pæla í fólki og karekturum þegar þú varst að alast upp? Tókstu eftir þeim sem skáru sig úr?

„Jú, mikil ósköp. Gerðum við það ekki öll? Það var náttúrlega alveg dásamlegt persónugallerí á Skaganum og um það mætti raunar skrifa margar bækur. Þess vegna er kannski ekkert skrítið þótt eitthvert brotabrot af því skuli liggja í sviðsmynd Endurfunda. Annars hafði ég yfirleitt mestan áhuga á þeim sem lítið fór fyrir. Dularfullu týpurnar voru spennandi; hæglátir einfarar sem fór með veggjum, jafnvel endilöngum Sementsverksmiðjuveggnum á leið heim úr vinnu. Með suðvestanstorminn í vangann. Það var eitthvað heillandi við þá. Eins var með skáldin sem Skagann gistu; Gyrði Elíasson, Hannes Sigfússon og fleiri. Ég varð eiginlega starstruck þegar ég hitti Steinar Sigurjónsson einhvern tímann í biðskýli Akraborgarinnar. Í mínum huga voru þetta mikilmenni. Og á þeim tíma dirfðist ég ekki að dreyma um að fara inn á þeirra svið; hvað þá að feta í fótspor þeirra. Mér fannst ég fullsæmdur af músíkinni.“

Annars hafði ég yfirleitt mestan áhuga á þeim sem lítið fór fyrir. Dularfullu týpurnar voru spennandi; hæglátir einfarar sem fór með veggjum

Hvað er það sem þú saknar mest frá Akranesi , nú þegar þú ert ekki búsettur þar lengur?

„Ég sakna sjávarloftsins. Seltunnar. Í Eyjafirðinum bý ég vissulega við sjó. En það er svo langt inni í firði. Allt annað loft, einhvern veginn. Sunnanáttin á Akureyri er sérstaklega leiðinleg. Með henni berst aur og sandur ofan af hálendinu og andstyggileg mykjufýla úr sveitinni. Svo sakna ég útsýnisins af Skaganum. Víðáttunnar. Hér er ég bara með blessaða Vaðlaheiðina. Ég sakna þess stundum að horfa út á opið Atlantshafið. Sjá björt borgarljós. Eða ægifagran Snæfellsjökulinn. Svo saknar maður þess náttúrlega að sjá ekki fólkið sitt svolítið oftar. Fjölskyldu og gamla vini.“

Áttu góð ráð fyrir þá sem yngri eru og hafa áhuga á að semja, skrifa og búa eitthvað til?
„Ég veit ekki hvort maður er þess umkominn að gefa öðrum ráð. Eða hvort slíkt hafi yfirleitt nokkuð upp á sig. Alvöru hæfileikafólk sem hyggur á sköpun er ekkert endilega líklegt til að fara að ráðum annarra.

Alvöru hæfileikafólk sem hyggur á sköpun er ekkert endilega líklegt til að fara að ráðum annarra

Það þarf að finna sína rödd – sinn tón – á eigin forsendum. Í byrjun snýst þetta svolítið um að vera fylginn sér og agaður; haldast að verki og gefast ekki upp þótt manni líði stundum eins og ekkert vitrænt sé í fæðingu. Annars er þetta held ég svolítið eins og í músíkinni. Þar er svo mikilvægt að hlusta bara nógu andskoti mikið í byrjun. Læra síðan að meta þögnina. Æfa sig svo og svo mikið en kunna síðan að sleppa. Leyfa sér að vera. Gleyma loks öllu sem maður hefur lært, ef svo má segja. Láta af meðvitundinni um það. Þetta sest allt fyrir innra og nýtist síðan einhvern veginn ef hæfileikarnir eru á annað borð til staðar.“

Ég sakna þess stundum að horfa út á opið Atlantshafið. Sjá björt borgarljós. Eða ægifagran Snæfellsjökulinn

Grípur þú enn í gítarinn? Og ef svo er, við hvaða tilefni?

„Sárasjaldan, síðustu árin. Skömm frá að segja. Ég þori varla að taka upp hljóðfærið hér heima nema þá rétt til leika og syngja með dætrum mínum. Ef ég er einn að væflast með gítargarminn þá kemur alltaf einhver hugmynd að lagi. Og ég kann ekki alveg við það. Er lafhræddur um að verða óléttur af músík og fyllast þá þörf fyrir að fæða hana; koma henni frá mér. Og ég má bara ekkert vera að slíku núna. Er þess utan lítt spenntur fyrir tónleikahaldi sem fyrri daginn. Góðu heilli er mun sjaldnar hringt en í gamla daga. Ég hef enda oftsinnis sagst vera hættur í músík. Það þarf eitthvað sérstakt til að maður skríði úr hýðinu, svona í seinni tíð. Það eru líklega að verða tvö ár síðan ég síðast kom fram með gítarinn og þá við útför heima á Akranesi. Það var nokkuð sem ég gat ekki sagt nei við. Fyrir fólk sem mér er hlýtt til. Og varla hægt að tala um það sem opinbera framkomu.

Orri Harðarson á sínum yngri árum með gítarinn. Mynd/ljósmyndasafn Akraness.
Orri Harðarson á sínum yngri árum með gítarinn. Mynd/ljósmyndasafn Akraness.

Ég þori varla að taka upp hljóðfærið hér heima nema þá rétt til leika og syngja með dætrum mínum

Síðasta eiginlega giggið sem ég tók þátt í var í Hörpu, haustið 2013. Þá hélt Félag tónskálda og textahöfunda upp á þrjátíu ára afmæli sitt og mér fannst bara heiður að vera með. Þótti vænt um að vera beðinn um að koma og taka lagið. En það heyrir til algjörra undantekninga að ég þekkist slík boð. Það er helst að ég sakni þess stundum að vinna í hljóðverum. Mér fannst það oft óskaplega gaman og gefandi. En maður slær svo sem á fráhvarfseinkennin með því að sinna enn eftirvinnslu á plötum, annað veifið. Þannig hljóðblanda ég og mastera stöku sinnum plötur fyrir einhverja sem þekkja til mín, án þess þó að gera út á slíkt eða standa í eiginlegum rekstri. Þetta er meira svona músíkölsk kúnstpása frá ritstörfunum, endrum og eins. Þá hvílir maður augun með eyrunum,“ sagði Orri Harðarson við skagafrettir.is.

Skáldsagan Endurfundir hefur heldur betur fengið góða dóma eins og sjá má hér fyrir neðan:

 

„Nístandi kaldhæðin, en um leið falleg. Óvægin en sönn.“
– Bubbi Morthens.

„Orra Harðarsyni lætur vel að segja sögur og lýsa persónum en ekki síður að miðla tilfinningum og andrúmslofti af næmni og kímni í bland.“
– Brynhildur Björnsdóttir, Fréttablaðið.

„Hann er náttúrlega mjög fyndinn, Orri, finnst mér; og þetta er þannig stíll … hratt og skemmtilegt … karakterlýsingar á fólkinu þarna eru oft mjög skemmtilegar … Sögusviðið heppnast rosalega vel …“
– Sunna Dís Másdóttir, Kiljan.

„Þetta er afar skemmtileg bók, hlý, mannleg, fyndin og full af skemmtilegum karakterum. Ekki bara persónurnar verða ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, heldur einnig allt umhverfi sögunnar. Bókin er verulega vel skrifuð, stíllinn er lipur og lifandi og endirinn þannig að manni hlýnar um hjartarætur.“
– Guðríður Haraldsdóttir, Vikan.

„Hann er mjög hnyttinn … mjög gott lag á að tengja tónlist og tíðaranda við söguna og gerir það rosalega vel og af svo mikilli þekkingu … Frábær lýsing á Skaganum …“
– Sigurður Valgeirsson, Kiljan.

„Orra tekst vel að skapa lifandi heim á Akranesi á þessum tíma og lesandinn sogast inn í hversdagslíf persónanna. Verkið er kómískt og dregur upp skondna mynd af þessum unga manni sem er á krossgötum í lífinu.“
– Guðrún Baldvinsdóttir, Rás 1 (Víðsjá)

„Sköpunargleðin og skreytilistin minnir svolítið á Einar Kárason í stuði. Stundarfró var semsagt ekki byrjendaheppni.“
– Þorgeir Tryggvason.