Fjármálafræðsla fyrir nemendur í efstu bekkjum grunnskóla á Akranesi er hluti af námsefni þeirra. Á dögunum komu fulltrúar fjármálastofnana á Akranesi í heimsókn í Grundaskóla (Landsbankinn, Íslandsbanki og Sjóvá) þar sem rædd voru fjármál og fjármálalæsi. Lögð er áhersla á að vinna með raunveruleg verkefni. Fjármál einstaklinga og heimila er eitt af því.
Ég verð að segja að nær undantekningalaust eru nemendurnir mjög áhugasamir varðandi námsefnið,“ segir Hannes Marinó Ellertsson útibússtjóri Landsbankans um verkefnið en hann fór í heimsókn í Grundaskóla á dögunum. „Þegar við, starfsmenn fjármálafyrirtækja, höfum verið að heimsækja skólana og ræða fjármál við nemendur á elsta stigi grunnskólanna höfum við verið þess áskynja að nemendurnir eru mjög opnir til að ræða þessi mál við okkur og les maður í skýin að þörfin fyrir meiri umræðu um fjármál sé til staðar.“

Hannes fer yfir málin með Valgarði L. Jónssyni kennara: Ljósmynd/Grundaskóli.
Hannes bætir því við að frumlegar lausnir og tillögur nemenda séu það skemmtilegasta við heimsóknirnar.
„Það eru mjög ólík sjónarmið hjá nemendum þegar þau eru að leysa raunverkefnin sem við leggjum fyrir þau. Það er mjög skemmtilegt að sjá þær tillögur. Það sem kom mér mest á óvart er eflaust það hverju margir nemendur eru vel að sér í fjármálum. Margir hafa sett sér fjárhagsleg markmið og vita að það þarf að hafa fyrir hlutunum.
Margir hafa sett sér fjárhagsleg markmið og vita að það þarf að hafa fyrir hlutunum
Uppbygging námsefnisins byrjar á almennu spjalli (5-10 mín.) við nemendur um fjármál, því næst er bekknum skipt upp í nokkra 5-6 manna hópa þar sem hópurinn fær úthlutað verkefni (35-40 mín. )sem hann á að leysa. Eftir kynningu hjá hverjum hópi er sýnt myndband með landsþekktum íslendingum, myndbönd sem hitta beint í mark,“ sagði Hannes við skagafrettir.is

