Stórskemmtilegt BINGÓ og metnaðarfullt bakkelsi
– Kirkjubraut 40 kl. 14.00 sunnudaginn 20. nóvember
Það er fjölbreytt starf hjá Félagi eldri borgara á Akranesi , FEBAN. Línudanshópur félagsins vinnur að því að fara í keppnis – og sýningarferð til Persaro á Ítalíu árið 2018. Sýningin heitir Golden Age Gym Festival. Sigrún Jóhannsdóttir, eldhress félagi í línudanshópnum, segir í samtali við skagafrettir.is að hópurinn standi saman að fjáröflun fyrir þetta verkefni og er samstaðan mikil í hópnum.
„Við bökum kleinur og seljum þær, það hefur gengið vel, og við erum einnig með BINGÓ þar sem vinningarnir eru veglegir. Sunnudaginn 20. nóvember kl. 14.00 verður BINGÓ skemmtun hjá okkur í sal FEBAN við Kirkjubraut 40. Þar verður gott bakkelsi með kaffinu og það er metnaður sem ríkir í því bakkelsi,“ segir Sigrún en kaffihlaðborð er innifalið í bingóspjaldinu og hvetur hún alla Skagamenn á öllum aldri að mæta og taka þátt í góðri stund.
Þar verður gott bakkelsi með kaffinu og það er metnaður sem ríkir í því bakkelsi
Línudanshópur FEBAN fór í ferð til Evrópu haustið 2016 og segir Sigrún að sú ferð hafi gefið hópnum mikið í lífsgæðum.
„Hópurinn fór til Portoroze í Slóveníu núna í haust og þar sýndum við okkar línudans, þetta var gríðarlega skemmtileg ferð, mikið fjör í hópnum og frábærar minningar sem við eigum eftir þessa ferð. Núna förum við af stað með þessar fjáraflanir og tíminn mun bara leiða það í ljós hvort af þeirri ferð verður,“ sagði Sigrún.