Mikil gróska í starfi Sundfélags Akraness – á þriðja hundrað stunda æfingar
Það stendur mikið til hjá afrekssundfólki hjá Sundfélagi Akraness um næstu helgi en Íslandsmótið í 25 metra laug fer þá fram. Sundfélag Akraness er í fremstu röð á landinu og er í hópi fimm sterkustu sundfélaga landsins. „Við erum með sundfólk í okkar röðum sem eru að berjast um Íslandsmeistaratitla á hverju einasta ári. Og margir af okkar yngri keppendum eru einnig að standa sig vel,“ segir Harpa Finnbogadóttir varaformaður Sundélags Akraness.
„Það ríkir mikil tilhlökkun hjá okkur öllum og það er góð stemning í hópnum. Margir af okkar keppendum ætla sér í úrslit og við erum sannfærð um að margir úr ÍA muni berjast um verðlaun á þessu Íslandsmóti. Þar ber helst að nefna að Ágúst Júlíusson og Sævar Berg Sigurðsson eiga góða möguleika á Íslandsmeistaratitlum og verðlaunum. Það eru einnig stelpur í hópnum sem eiga eftir að koma sterkar inn.“
Erum sannfærð um að margir úr ÍA muni berjast um verðlaun á þessu Íslandsmóti
Harpa segir að mikil gróska sé í starfi Sundfélagsins:
„Fjöldi sundmanna hefur aukist mjög síðustu árin og við erum með mikið af öflugum sundmönnum. Alls eru 23 hópar sem æfa hjá félaginu og þar af 17 í Bjarnalaug. Það er erfitt að koma þessu öllu fyrir en það eru 210 krakkar sem æfa, allt frá ungbarnasundi og upp í 10 ára. Á Jaðarsbökkum erum við með um 50 í æfingahóp hjá þeim sem eru í keppnishópum okkar.“
Það gengur á ýmsu yfir vetrarmánuðina hjá sundfólkinu sem æfir í Jaðarsbakkalaug og þar getur blásið kröftuglega og vont veður setur oft strik í reikninginn.
„Aðstöðuleysið hefur sett okkur í erfiða stöðu. Við erum með afnot af þremur brautum en gætum nýtt fleiri brautir. Það er því þröngt á þingi. Það vilja allir aðstoða okkur í þessu og ég vil þakka starfsfólkinu í Jaðarsbakkalaug sem gerir allt fyrir okkur, lætur krökkunum líða vel og finnur lausnir.
Í haust höfum við verið heppin með veður og ekki margar æfingar fallið niður, Á þriðjudaginn s.l. féll niður æfing vegna öldugangs. Elstu keppendurnir láta sig hafa það að fara á æfingu í flestum veðrum en þeir sem eru 12 ára og yngri eru ekki send út í mikið rok og kulda.
Vil þakka starfsfólkinu í Jaðarsbakkalaug sem gerir allt fyrir okkur
Við reynum að nýta þrekaðstöðuna í slíkum tilvikum en þar er oft þröngt því bæjarbúar eru farnir að hreyfa sig mikið og það er bara jákvætt. Um helgar yfir vetrarmánuðina förum við stundum í Hafnarfjörð að æfa í innilaug og þar er alltaf tekið vel á móti okkur.“