Einar Örn er sá sterkasti á Flórída-Skaganum

Einar Örn Guðnason er án efa einn sterkasti Skagamaðurinn nú um stundir. Kraftlyftingamaðurinn gerði sér lítið fyrir og sigraði á Bikarmóti sem fram fór í Hafnarfirði helgina 5.-6. nóvember s.l.  Einar Örn, sem keppir fyrir Kraftlyftingafélag Akraness, var stigahæsti keppandi mótsins þar sem hann fékk 524,6 Wilkstig.

Einar Örn keppti í -105 kg. flokki sem þýðir að hann er sjálfur undir 105 kg í líkamsþyngd. Hann setti Íslandsmet í hnébeygju þar sem hann lyfti 355 kg., 240,5 kg. í bekkpressu og 280 kg. í réttstöðulyftu. Samanlagt gerir þetta 875,5 kg. sem er Íslandsmet í samanlögðu.

Einar Örn er 25 ára, fæddur 31. júlí 1991. Hann er sveitastrákur og kemur frá Brautartungu í Lundarreykjadal.

„Ég byrjaði árið 2009 að æfa lyftingar en fyrst prófaði ég bara til þess að verða sterkari. Ég var ekkert að pæla í því að fara að keppa strax. Áhuginn var hinsvegar mikill frá upphafi og ég var byrjaður að keppa þremur mánuðum eftir að ég byrjaði að æfa,“ segir Einar í samtali við skagafrettir.is.

Ég hef alltaf verið mikið í íþróttum, byrjaði í frjálsum 6 ára

og stundaði sund, körfubolta og dans samhliða þeim.

Einar Örn hefur fjölbreyttan bakgrunn í íþróttum. „Ég hef alltaf verið mikið í íþróttum, byrjaði í frjálsum 6 ára og stundaði sund, körfubolta og dans samhliða þeim. Árið 2001 byrjaði ég í dansi og var þá í frjálsum og dansi þar til ég byrjaði að lyfta.“

Helsta markmið Einars er að lyfta einu tonni í samanlögðu

 

Árangurinn á bikarmótinu kom Einari ekkert sérstaklega á óvart. „Ég vissi að bætingar voru í aðsigi. Ég náði ekki markmiðunum mínum en var þó ekki langt frá þeim en ég alls ekki verið ósáttur með árangurinn,“ segir Einar en hann æfir þrisvar sinnum í viku í íþróttahúsinu við Vesturgötu.

„Yfirleitt gengur vel að sameina vinnu og æfingar, en ég þarf stundum að stilla æfingavikunni upp eftir því hvernig ég er að vinna,“segir Einar en hann starfar sem vélvirki á Grundartanga. Helsta markmið hans er að lyfta einu tonni í samanlögðu.

„Það mun gerast á næstu árum, ég er sannfærður um það. Næsta stórmót eru Reykjavíkurleikarnir og fleiri mót á næsta ári Íslandsmeistaramót og bikarmót.“