Ágúst: „Frábær samvinna með Kjell og Dean“

Ágúst Júlíusson, íþróttamaður Akraness 2015, náði frábærum árangri á Íslandsmótinu í 25 metra laug sem fram fór um s.l helgi. Ágúst var einn af þremur keppendum úr Sundfélagi Akraness sem náði í verðlaun á mótinu en alls voru níu keppendur frá ÍA.

Ágúst, sem er 27 ára gamall, fagnaði Íslandsmeistaratitlum í 50 m og 100 m flugsundi. Hann setti Akranesmet og náði keppnisrétti á Norðurlandamótinu í Danmörku sem fram fer um miðjan desember. Að auki náði Ágúst silfurverðlaunum í 50 metra skriðsundi og setti hann Akranesmet.

Sævar Berg Sigurðsson náði silfurverðlaunum í 200 m bringusundi og var aðeins 0,02 sekúndum á frá sigri. Þá vann Sævar til bronsverðlauna í 100 m bringusundi. Brynhildur Traustadóttir bætti sinn besta árangur í 400 m skriðsundi um 14 sekúndur, sem er gríðarleg bæting og vann hún til bronsverðlauna.

Árangurinn var eins og ég stefndi á en ég var mun fljótari í skriðsundinu en ég bjóst við

„Árangurinn var eins og ég stefndi á en ég var mun fljótari í skriðsundinu en ég bjóst við – það kom mér á óvart. Þjálfararnir mínir eru frábærir og vita upp á hár hvað þeir eru að gera,“ sagði Ágúst við Skagafréttir en hann vinnur 100% starf á vöktum í Norðuráli samhliða æfingum.

„Ég reyni að fara á 8-11 æfingar á viku en það fer eftir því hvað ég er að vinna mikið. Ég reyni að nýta aðstæður hérna á Akranesi eins og hægt er. Ég er ekki í vafa að árangurinn væri enn betri ef aðstæður væru betri á Akranesi. Á undanförnum árum hef ég lagt meiri áherslu á styrktaræfingar og það hefur skilað sér,“ segir Ágúst. Dean Martin sér um styrktaræfingar eldri sundmanna ÍA og er Ágúst ánægður með samstarfið.

Ég hef lyft mikið og þungt þrisvar sinnum í viku síðan í júní á þessu ári

„Ég hef lyft mikið og þungt þrisvar sinnum í viku síðan í júní á þessu ári. Þetta er frábær samvinna með Dean og að sjálfsögðu með Kjell Wormdal aðalsundþjálfara okkar.“

Næstu verkefni hjá Ágústi er Norðurlandameistaramótið sem fram fer í Danmörku.

„Þar er markmiðið að komast í úrslit í flugsundsgreinunum og jafnvel á verðlaunapall. Eftir það mót hefst undirbúningur fyrir 50 metra keppnistímabilið og Smáþjóðaleikana í San Marínó næsta sumar.

Ættfræðitréð:
Ágúst Júlíusson, 27 ára Skagamaður. Foreldrar; Julíus Víðir Guðnason, skipsstjóri hjá Faxaflóahöfnum. Fanney Björnsdóttir þroskaþjálfi við Brekkubæjarskóla frá Ólafsvík. Bróðir Ágústar er Guðmundur Brynjar 22 ára.Amma og afi í föðurætt; Lilja Guðrún Pétursdóttir, Guðni Halldórsson. Amma og afi í móðurætt: Elísabet Guðmundsdóttir, Ágúst Tómasson.

Sævar Berg, Brynhildur og Ágúst.
Sævar Berg, Brynhildur og Ágúst.