Baldur Ragnarsson skrifar þessa frábæru sögu af nuddi í Kambódíu. Skagamaðurinn og nuddarinn Siggi Skó kemur þarna lítilsháttar við sögu. Skagakonan Vera Líndal Guðnadóttir er þarna í aðalhlutverki þar sem að Baldur er sambýlismaður hennar. Baldur er gítarleikari og söngvari í hinni einu sönnu Skálmöld.
Upplifun númer tvö.
Við tókum rútu frá Bangkok til Siem Reap í Kambódíu. Ferðin var 9 tímar sem er ekkert hræðilegt út af fyrir sig en eins og sumir vita er hryggurinn á Veru minni í laginu eins og W á sýru. Hún var sumsé alveg að drepast í dag eftir ferðina og ákvað að láta nudda þetta úr sér. Ég ákvað að sjálfsögðu að fara með.
Nudd fyrir mér er klár útivöllur. Mín litla reynsla var samt meira jákvæð en slæm. Ég hef tvisvar sinnum borgað fyrir nudd, einu sinni í Perú og það var bæði mjög spes og ekkert spes og einu sinni hjá Sigga Skó á Akranesi og það var aaalgjörlega frábært. Svo hefur minn helsti óborgaði nuddari verið Þráinn Árni á Skálmaldartúrum og þeir puttar geta gert mun fleira vel en að spila hröð sóló (óviðeigandi brandarar vel þegnir).
En allvega, við dettum inn á nuddstofu, það stendur Spa stórum stöfum utan á húsinu og það er svona rólyndis slökunartónlist með MIDI-vatnsnið undir í andyrinu. Við fengum nuddseðil og ákváðum bæði að fara í 60 mínútna bak- og herðanudd með dassi af andliti. Þar á eftir fékk maður að velja hvaða svæði ætti að verka vel og hvaða svæði ætti að forðast.
Svo valdi maður styrkleika. Vera valdi medium. Ég valdi strong.
Eftir smá lappasnertingu og te náði nuddarinn í mig. Hann var ca 160 á hæð, mjóróma og virkaði mjög brothættur. Ég ákvað strax að þetta yrði medium í mesta lagi.
Hann teymdi mig inn í nuddherbergið. Hann spurði mig hvort ég vildi fara í sturtu. Það var mjög fallega gert af honum af því að við vissum báðir að ég var fullkomlega ógeðslega ógeðslegur. Ég sagði já, fyrst og fremst af því að ég vildi að fjölskyldan hans fengi sama mann í hendurnar í kvöld og fór út úr húsi í morgun. Eftir sturtuna lagðist ég svo á bekkinn með andlitið í gatið og andaði að mér lótuslyktinni úr balanum sem var fyrir neðan.
Svo var ræs. Hann togaði niður sérsniðnu netabrækurnar sem hann lét mig hafa (djöfull hugsaði ég til þín Jóhann Hermannsson) og byrjaði nuddið í rólegheitum. Ég hugsaði strax „jamm, aumt, medium rare í mesta lagi“. Hann strauk upp hrygginn með óþolandi mikilli mýkt margoft og alltaf þegar hann byrjaði stroku renndi hann þumlunum upp rassskoruna á mér. Verandi óvanur viðurkenni ég að ég hugsaði um það hvort ég hefði óvart hakað í happy ending en svo reiknaði ég bara með því að þetta væri einhver nuddlenska, frítt spil, svipað því að klappa einhverjum á rassinn á Cross-fit æfingu.
Eftir 5 mínútur af þessu hélt ég að þetta yrði svona í klukkutíma. Það var rangt hjá mér.
Eftir létta stroku frá rassgati upp að hálsi ýtti hann mér með einni leiftursnöggri hreyfingu langleiðina niður í gólf. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig hann gerði það en hann gerði það.
Ég veit ekki í hverju brakaði mest en það var blanda af mér, honum, bekknum og mögulega grunninum í húsinu. Ég komst fljótlega að því að ég gat ekki andað þannig að ég endurstaðsetti hausinn í gatinu, setti hökuna aðeins undir mig og sannfærði sjálfan mig um að ég væri með þetta. Þetta breytti engu, barkakýlið lokaðist á bekknum við hverja snertingu, sama hvað ég reyndi.
Eftir korter af þessu hnoði var ég alveg hættur að finna fyrir nokkru og var bara nokkuð sáttur við það, taldi mig þá kominn yfir versta hjallann. Það var rangt. Þá náði hann nefnilega í kolin. Held ég allavega, ég sá þau aldrei en ég er nokkuð viss um að þetta hafi verið brennandi kol. Bakið á mér gjörsamlega logaði og herbergið fylltist af lykt sem á venjulega að gera mann svangan.
Ég fann fyrir kolunum í svona 2 mínútur og þá dofnaði ég aftur. Þá spurði hann með brothættu kurteisu röddinni sinni: „Is everything alright?“. Ég sagði „everything is fantastic“. Það var gisk, ég hafði ekki hugmynd um það. Ég hefði getað fjarað út af innvortis blæðingum á nokkrum mínútum. Hann hefði getað verið búinn að flaka mig niður að geirvörtum og ég hefði aldrei vitað af því. En þegar maður biður um strong þá þarf maður að halda kúlinu.
Eftir 20 mínútur af hreinsunareldinum var komið að andlitspartinum og hann bað mig um að leggjast á bakið, sem ég gerði. Þarna kom menningarmunurinn einna skýrast fram. Í Kambódíu er þetta kallað andlitsnudd. Á Íslandi er þetta kallað slagur. Hann stóð beisiklí yfir mér í 15 mínútur og barði mig í klessu. Á launum. Og hann var enginn aukvisi, ég hefði sent hann á hvaða Ýdalaball sem er án þess að hika.
Síðustu 5 mínúturnar notaði hann svo í að og klappa mér á öxlina, svona „mikið ert þú búinn að vera duglegur“ klapp.
Svo fékk ég aftur te. Algjör snilld.
Ég sumsé mæli eindregið með strong-nuddi í Kambódíu. Það væri samt mun heiðarlegra af þeim að sleppa því að setja Spa framan á húsið og setja frekar Liebherr.
Já og Vera er öll önnur.