Þorgeir Hafsteinn Jónsson er nýr fjármálastjóri Akraneskaupstaðar
Nýverið var Þorgeir Hafsteinn Jónsson ráðinn sem fjármálastjóri Akraneskaupstaðar. Þorgeir, sem er 37 ára gamall, hefur störf á Akranesi þann 1. desember. Þorgeir hefur margra ára reynslu úr fjármálum, fjárfestingum og fyrirtækjarekstri.

Í viðtali við skagafrettir.is segir Þorgeir að það ríki tilhlökkun hjá fjölskyldunni að takast á við nýtt verkefni og það verði spennandi að flytja á Flórída-Skagann.
„Ég er úr Garðabæ en ég kynntist konunni minni, Sigrúnu Hildi Sigurðardóttur, þegar ég var 16 ára gamall. Hún er úr Hafnarfirði og ég ég flutti í Hafnarfjörðinn 19 ára gamall. Við eigum þrjá stráka sem eru 6, 10 og 16 ára,“ segir Þorgeir þegar hann er inntur eftir því hvar hann hafi alið manninn á undanförnum árum.
Upphafsstafirnir IA komu fljótlega við sögu þegar Þorgeir flutti í Hafnarfjörðinn. „Ég var skilgreindur sem „innfluttur andskoti“ sem er kallað „IA“ í Hafnarfirði,“ segir Þorgeir í léttum tón.
Ég var skilgreindur sem „innfluttur andskoti“
Þorgeir lauk stúdentsprófi frá Fjölbautaskólanum í Garðabæ, tók viðskiptafræði í Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja.Samhliða náminu vann Þorgeir á frystitogaranum Venusti HF 519 hjá Granda.
„Ég hef þær væntingar til starfsins á Akranesi að ég fái að starfa með góðum og samhentum hóp sem vinnur að sameiginlegu markmiði – að hagur bæjarfélagsins verði sem mestur. Ég held að takmarkið náist ef allir fá tækifæri til þess að læra og þroskast í þeirri vinnu.“
Þorgeir gerir fastlega ráð fyrir að flytja á Akranes en hann mun ekki styrkja leikmannahóp ÍA í fótboltanum þrátt fyrir að hafa verið glerharður sópari í vörn Stjörnunnar á yngri árum.
„Ég myndi nú seint segja að ég sé góður í fótbolta. Ég spilaði ýmsar stöður í vörninni hjá Stjörnunni og sá aðallega um að enginn fengi frítt skot á markið. Ég spila bara í dag „bumbubolta“. Í slíkum bolta eru allir jafngáttaðir á því að líkaminn fylgi ekki eftir því sem menn eru að hugsa og ætla sér að framkvæma – líkt og þeir gátu á yngri árum.“
Við erum mjög heimakær, og Skaginn mun henta okkur vel
Þorgeir ætlar að taka sér aðlögunartíma í því að komast inn í stuðningssveit ÍA í fótboltanum. „Það er erfitt að skilja við sitt uppeldisfélag en ég mun styðja við bakið á ÍA í öllum leikjum en ég verð næstum því „hlutlaus“ í nokkrum leikjum.“
Eins og áður segir stefnir fjölskyldan á að flytja á Akranes og telur Þorgeir að Akranes sé tilvalinn fjölskylduvænn bær fyrir fjölskylduna. „Við erum mjög heimakær, og Skaginn mun henta okkur vel. Það eru góðir skólar í bænum og öll sú þjónusta sem við sækjumst eftir er til staðar.“

Þorgeir var inntur eftir góðri upplifun af Akranesi frá heimsóknum hans í gegnum árin – og þar kemur golfíþróttin við sögu.
„Ég hef átt góða daga á Skaganum og þá aðallega á golfvellinum – ég hef einnig átt slæma daga á golfvellinum, og þá kenni ég drævernum um það. Helstu einkenni Skagamanna að mínu mati eru fyrst og fremst ótrúleg harka, seigla og baráttugleði sem einkennt hefur ÍA í knattspyrnunni – og það er ótrúlegt hve marga titla félagið hefur unnið. Í mínum huga er það lýsandi einkenni á fólkinu sem þar býr.
Alls voru 22 sem sóttu um starfið sem Þorgeir var ráðinn í. Þorgeir hefur meðal annars starfað sem framkvæmdastjóri Íslensks eldsneytis ehf., verið fjármálastjóri hjá fjárfestingar- og fasteignafélaginu Þórsgarði hf., verkefnastjóri í fyrirtækjaráðgjöf hjá Ernst & Young ehf og sérfræðingur hjá Virðingu.
Alls voru 22 sem sóttu um starfið.
Á vef Akraneskaupstaðar kemur fram að staða fjármálastjóra var auglýst í kjölfar skipulagsbreytinga á stjórnsýslu- og fjármálasviði Akraneskaupstaðar.
Ákveðið var að styrkja fjármáladeildina með tilfærslu verkefna innan bæjarskrifstofunnar. Andrés Ólafsson sem hefur gegnt stöðu fjármálastjóra mun nú taka við starfi verkefnastjóra á stjórnsýslu- og fjármálasviði.