„Ég var ekkert stressaður“

Viðtal við Skagamanninn Teit Arason
sem var sigursæll á bikarmóti i Fitness

Skagamaðurinn Teitur Arason var sigursæll á bikarmóti í Fitness sem fram fór í Háskólabíó fyrir skemmstu. Teitur, sem er fæddur árið 1993, og er því 23 ára gamall sigraði í unglingaflokki og opnum flokki karla. Hann var jafnframt heildarsigurvegari í fitness karla. Teitur segir í viðtali við skagafrettir.is að honum hafi liðið vel fyrir mótið en þetta er í fimmta sinn sem hann keppir í fitness.

„Mótið var vel skipulagt, og vel haldið utan um hlutina. Um morguninn var forkeppni og síðar um daginn var aðalkeppnin. Ég var ekkert stressaður enda var ég búinn að undirbúa mig vel í marga mánuði fyrir þessa keppni. Ég var bara mættur til þess að njóta,“ segir Teitur en hann setti sér það markmið sumarið 2015 að ná árangri á þessu móti.

„Ég ákvað árið 2015 að keppa á þremur mótum hér á landi í röð, bikarmóti 2015, Íslandsmóti 2016 og bikarmóti 2016. Það tókst og ég náði ágætis árangri á þessum mótum. Ég gaf allt í æfingarnar á þessu ári, sleppti aldrei máltíðum, og æfingarnar sem ég missti af á 1 ½ ári má telja á fingrum annararr handar. Ég stefndi á sigur og get því ekki annað en verið ánægður með útkomuna.“

Ég stefndi á sigur og get því ekki annað en verið ánægður með útkomuna

Teitur æfir tvisvar á dag í World Class í Laugum þar sem hann starfar sem einkaþjálfari frá morgni til kvölds. „Ég æfi alla daga tvisvar á dag, nema á sunnudögum þá tek ég eina morgunæfingu eða hvíli mig. Ég spila það eftir eyranu og hvernig mér líður. Ég er að velta fyrir mér ýmsum hlutum varðandi framtíðina. Mig langar að keppa á stærri mótum erlendis. Arnold Amateur í Bandaríkjunum og Evrópumeistaramótið 2018 koma þar til greina,“ segir Teitur Arason.

 

Ættfræðitréð:
Teitur Arason er fæddur á Akranesi. Foreldrar hans eru Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir hjúkrunarfræðingur og Ari Jóhannesson læknir. Teitur á þrjá bræður, Egil Arason og hálfbræðurna Árna Gaut Arason og Jóhannes Arason.

Teitur Arason.
Teitur Arason.
Teitur Arason.
Teitur Arason.