„Ef ég get bakað þetta þá geta það allir“

Skagakonan Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir gaf nýverið út bókina „Kökugleði Evu“ sem hefur að geyma uppskriftir að rúmlega 80 ljúffengum kökum af öllum stærðum og gerðum. Eva Laufey mun kynna bókina sína hér á Akranesi á laugardaginn og er það tilvalið tækifæri fyrir Skagamenn að kynna sér uppskriftirnar og kitla bragðlaukana.

„Ég ætla að kynna bókina mína Kökugleði Evu frá klukkan 13.00 í Penninn Eymundsson. Bókin verður á sérstöku verði og ég kem til með að bjóða upp á smakk úr bókinni. Það verður sannkölluð jólastemning yfir þessu og vonandi sé ég sem flesta Skagamenn í jólafíling með rjóma út á kinn eftir kökusmakkið,“ segir Eva við skagafrettir.is. Bókina tileinkar hún ömmu sinni, Stínu frá Guðnabæ (Kristínu Jónsdóttur).

Ég ætla að kynna bókina mína frá klukkan 13.00 á laugardaginn í

„Penninn Eymundsson“

„Ég er mjög mikil kökumanneskja og elska allar kökur, hef gert það frá því að ég var lítil. Ég tók því saman uppáhalds kökuuppskriftinar mínar sem eru margar hverjar frá ömmu minni og mömmu, vinsælar uppskriftir sem hafa fylgt fjölskyldunni minni í mörg ár,“ segir Eva.

„Hugmyndin var að þetta sé falleg kökubók sem flestir tengja við. Ég tileinka ömmu minni Stínu bókina. Hún hefur hvatt mig í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur og smitaði mig svo sannarlega af hennar kökuást. Bókin á að endurspegla „kósíheit“ við bakstur, góðar kökur og minningar um ömmu og ég vona að fleiri tengi við að eiga góðar bakstursömmur.

eva_laufey_kapa_final_net_1024x1024

Geta karlmenn með þumalfingur á öllum spreytt sig á uppskriftum í bókinni?

„Já algjörlega, bókin samanstendur af ólíkum uppskriftum. Flestar uppskriftirnar eru mjög einfaldar en aðrar svolítið flóknar. Ef ég get bakað þetta þá geta það allir. Ég er ekki menntaður bakari, ég hef bara svo gaman af því að baka og prófa mig áfram. Ég trúi því að hver sá sem bakar með hjartanu fær góða útkomu.

Sjónvarpsþættirnir „Ísskápastríðið“ hafa slegið í gegn – hvað hefur komið þér mest á óvart í þáttunum og hvað er eftirminnilegast?

„Þetta er sjöunda serían sem ég geri í sjónvarpi en jafnframt sú skemmtilegasta. Ástæðan er líklega sú að það hefur verið frábært að vinna með Gumma Ben. Það er miklu áhugaverðara að vinna með skemmtilegu fólki en að blaðra við sjálfa mig ein eins og í matargleðinni. Í þessum þáttum fer ég aðeins út fyrir þægindarammann og það gerir öllum gott. Þetta eru allt öðruvísi þættir en ég vön að gera.  

Við erum himinlifandi með viðtökurnar og vorum auðvitað ferlega heppin að fá svo frábæra gesti í hvern þátt. Hugmyndin kom frá Loga Bergmanni svo þetta gat ekki klikkað.

Verður framhald á þessum þáttum?

„Já við erum strax byrjuð að skipuleggja næstu seríu sem verður næsta haust – matarfjörið heldur þess vegna áfram,“  sagði Eva Laufey að lokum.

Elísa Svala Elvarsdóttir skrifar: 

11260646_1201757923172787_4141365058331662384_o