„Get lofað flottum bardögum í The Voice“

Jóna Alla Axelsdóttir verður í sviðsljósinu í hinum vinsæla sjónvarpsþætti The Voice á föstudaginn. Þar mun hin 17 ára gamla Skagamær stíga á sviðið og sýna hvað í henni býr . Rúmlega 60.000 hafa horft á myndbandið af glæsilegum flutningi hennar á laginu Almost Is Never Enough í fyrsta þættinum. Og þar fékk hún mikið lof frá þjálfurunum fjórum en Jóna Alla valdi Sölku Sól Eyfeld sem þjálfara.

Í viðtali við skagafrettir.is segir Jóna Alla að hún hafi ekki leitað sjálf eftir því að komast í þáttinn og einhver benti stjórnendum í upptökuteyminu á þessa efnilegu söngkonu.

„Æfingarnar með Sölku hafa gengið mjög vel og mér líður alltaf jafn vel á æfingum og upptökum, þetta er alveg rosalega þægilegt umhverfi þar sem ég næ algjörlega að njóta mín. Ég hlakka mikið til að sjá hvernig þetta kemur út í þættinum og ég get alveg lofað flottum bardögum, bæði er ég stolt af mínum og svo eru allir aðrir líka svo ótrúlega góðir,“ segir Jóna Alla um þáttinn sem sýndur verður föstudaginn 2. desember.

En hvernig kom það til að 17 ára stelpa frá Akranesi komst í þáttinn?

Ég var þvílíkt spennt að fá þetta boð og mætti að sjálfsögðu í prufuna

„Ég fékk símtal frá Sagafilm um miðjan júlí á þessu ári og þar var mér sagt að einhver hefði bent á mig sem söngkonu. Ég var skráð í blindprufu og mætti koma í ágúst að syngja ef ég hefði áhuga. Ég var þvílíkt spennt að fá þetta boð og mætti að sjálfsögðu í prufuna.“

Jóna Alla valdi lag eftir bandarísku söngkonuna Ariönu Grande og Jóna Alla hafði beðið lengi eftir rétta tækifærinu til að syngja þetta lag sem er eitt af hennar uppáhaldslögum.

„Ég fann aldrei hentugt tækifæri til þess að syngja þetta lag en ég var mikið að syngja djasslög og slíkt í tónlistarskólanum. Þetta lag kom strax upp í hugann þegar ég var að velja lagið fyrir The Voice en ég viðurkenni að ég skipti oft um skoðun. Ég hafði það á tilfinningunni að þetta lag væri ekki nógu „stórt“ fyrir þáttinn. Á endanum ákvað ég bara að láta hjartað ráða. Þetta lag hefur þýðingu fyrir mig og ég gat því verið einlæg í flutningnum. Það hefur reynst mér vel að velja einlægu lögin og þau verða að snerta mig til þess að ég nái að syngja þau eins og ég vil.“

Eins og áður segir voru þjálfararnir í The Voice gríðarlega ánægðir með flutning Jónu Öllu en hvernig leið henni?

„Ég var mjög stressuð þegar ég steig á sviðið í prufunni. Ég vissi ekkert við hverju ég mátti búast og það er erfitt meta viðbrögðin þegar þau snúa baki í mann. Ég fékk sjokk þegar þau snéru sér öll við og ég var í sjokki næstu daga eftir að hafa heyrt þau segja allt þetta fallega um mig. Ég var næstum því farin að gráta en gat haldið aftur af mér þangað til ég fór niður af sviðinu. Brosið var fast á mér í einhverja daga á eftir.“

15182613_1534304963262695_869647757_oFaðir Jónu Öllu, Axel Gústafsson (Axel í Axelsbúð), leyndi ekki tilfinningum sínum þegar ljóst var að dóttir hans hafði heillað þjálfarana og þjóðina með söng sínum. Viðbrögð Axel fóru ekki framhjá sjónvarpsáhorfendum og gleðitárin streymdu niður kinnarnar á stoltum föður.

Pabbi er tilfinningaríkur maður

„Pabbi er virkilega stoltur af öllu sem ég geri í söngnum og ég er mjög þakklát fyrir það. Í prufunni held ég hann hafi ekki hræddur um að ég kæmist ekki áfram, þó ég hafi verið það, en hann er tilfinningaríkur maður og þarna grét hann af gleði og stolti.“

Jóna Alla byrjaði ung að syngja í kór Akraneskirkju og hefur tónlistin fylgt henni frá því hún var barn.

„Ég byrjaði í kórnum í kirkjunni þegar ég var 5 ára, og ég var í stúlknakór þar til ég var 13 ára. Ég lærði á píanó þegar ég var 6 ára og hélt því áfram til 12 ára aldurs. Í 8. bekk í Brekkubæjarskóla hvatti vinkona mín mig til þess að taka þátt í Hátónsbarkanum og það var í fyrsta sinn sem ég söng einsöng á sviði. Ég hef ekki hætt síðan. Tónlistarvalgrein í 9. og 10. bekk hafði mikið að segja fyrir sönginn hjá mér og hvatningin sem ég fékk frá Heiðrúnu Hámundadóttur tónlistarkennara var mikilvæg. Hún hvatti mig mest áfram og gaf mér sjálfstraust. Vorið 2015 var ég valin til að taka þátt í tónlistarferð í Svíþjóð og þar fékk ég mikla reynslu að vinna með sænskum tónlistarkrökkum að setja upp tónleika og slíkt.

Hvatningin sem ég fékk frá Heiðrúnu tónlistarkennara var mikilvæg

 

Jóna Alla ásamt hundinum Nóa.
Jóna Alla ásamt hundinum Nóa.

Ég hef verið í námi í rythmískum söng við Tónlistarskólann á Akranesi og kláraði þar grunnpróf í söng síðastliðið vor. Svo tók ég þátt í söngkeppninni í FVA þegar ég byrjaði þar, sigraði og fór sem framlag skólans míns í Söngkeppni framhaldsskólanna í apríl. Þar lenti ég í 2. sæti en keppnin var sýnd í beinni útsendingu á RÚV. Fyrir utan þessa stærri vettvanga hef ég aðallega verið að koma fram á minni tónleikum í tónlistarskólanum. Svo allt í einu gerðist The Voice og ég er ótrúlega spennt.“

Jóna Alla hlustar sjálf mest á popp og poppballöður þar sem listamenn á borð við Adele, Justin Bieber, Jón Jónsson, Ariönu Grande, Jessie J, Shawn Mendes, Beyonce, Ellu Eyre og James Arthur koma við sögu. Á topp þremur listanum yfir lög nefnir Jóna Alla eftirtalin lög sem hæt er að hlusta á hér fyrir neðan.

15126129_1534304939929364_1172633864_o
Jóna Alla og Alexander Örn Kárason.

Ættfræðitréð:
Jóna Alla er fædd þann 14. október 1999 á Akranesi. Hún byrjaði skólagönguna í leikskólanum Teigaseli, fór í Brekkubæjarskóka og er á öðru ári í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Foreldrar: Axel Gústafsson (Axel í Axelsbúð) og Kristín Halldórsdóttir, dóttir Kristínar er Kolbrún Inga Allansdóttir. Albræður Jónu Öllu eru Halldór Axel og Andri Snær. Hún á hund og kærasta, hundurinn heitir Nói og er 1 ½ árs en kærastinn er Alexander Örn Kárason 18 ára gamall Skagamaður.