Pistill: „Viltu koma í magabandsaðgerð“

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar:

Mér líður eins og húsasmíðameistaranum sem á enn eftir að klára þakskeggið eða bifvélavirkjanum sem ekur um á bíl með bilaðan dempara. Við vitum hvernig á að laga þetta – en við erum bara ekki alveg að nenna því núna. Ég er enn að borga af námsláni fyrir menntun sem snýr að því að bæta líkamlegt atgervi fólks á öllum aldri. Ég er menntaður íþróttakennari – með framhaldsnám frá Noregi. Þrátt fyrir þessa staðreynd hefur aðeins hallað undir fæti í glímunni við aukakílóin.

Skalinn á fjárans vigtinni hefur oft rokið í gegnum þekkt FM tíðnisvið á útvarpinu. Versta stund lífs míns var þegar ég náði Útvarp Sögu tíðninni og líklega verð ég kærður fyrir þessi ummæli. Það væri bara fínt þá fengi ég efni í nýja pistil.

Versta stund lífs míns var þegar ég náði Útvarp Sögu tíðninni

Ég hef m.a. verið hvattur til þess að fara í umhverfismat áður en ég fer t.d. í sund. Ég gat troðið bolta í körfu í 3.05 m. hæð á árum áður en í dag virðist ég bara geta troðið ofaní mig. Málið er að ég er að vinna í þessu og góðir hlutir gerast hægt – það stendur hér á svart á hvítu á skagafrettir.is. í pistli eftir hann Sigurjón.

Mér þótti því frekar hart að mér sótt í vikunni þegar ég fékk sms frá bláókunnugri konu sem heitir Marta. Ég fæ reyndar aldrei sms nema frá Orkuveitunni þegar allt er í fokki á Akranesi, Vodafone í útlöndum eða börnunum mínum þegar þau eru búin með inneignina.

15220090_10209327060911785_4525624378968428948_n
Konan, sem heitir Marta, spurði hvort ég gæti mætt í magabandsaðgerð þann 9. desember?

Ég veit að einn af mínum uppáhaldskylfingum hefur farið í svoleiðis aðgerð – en hafði ég skráð mig í slíkt hugsaði ég. Síðan fór ég að gruna að Golfklúbburinn Tuddi stæði á bak við þetta grín. En þeir eru nú flestir feitari en ég nema Rikki, Klemmi, Maggi Mörder, Forsetinn, Der Alte, og…jæja aftur að sögunni.

Ég afþakkaði magabandsaðgerðina sem mér var boðið í föstudaginn 9. desember.

Ég er upptekinn – það er jólahlaðborð í vinnunni.

Kannski bara mánudaginn 12. desember Marta?