„Krakkarnir kyrja erindi á meðan þau hoppa“

„Stjórnendur ÍA höfðu samband í sumar og viðruðu þessa hugmynd, hvort ég væri til í að setja saman afmælisvísu eða ljóð um ÍA og íþróttabæinn Akranes. Ég var reyndar treg til að svara til að byrja með, fannst ég yrði fyrst að finna réttu aðferðina, en svo fór þetta smám saman að mótast og þá lét ég þau snimmhendis vita,“ segir Sigurbjörg Þrastardóttir við skagafrettir.is en ÍA-ljóð hennar sem opinberað var á 70 ára afmælishátíð ÍA nýverið hefur vakið mikla athygli.

 

 

Fólk virðist tengja vel við erindin og taka til sín

„Ég held að flestir þekki þetta form ef ég nefni Hávamál, þau eru einmitt ort undir þessum hætti, sem nefnist ljóðaháttur. Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur hið sama. Fyrstu tvær línur stuðla saman, svo stuðlar þriðja línan sjálfstætt – og þannig áfram. Línulengdin er ekki alveg niðurnjörvuð, samt er í þessu ákveðinn taktur.

Ég fann út að þetta væri tilvalin aðferð til þess að lýsa framgöngu iðkenda í hinum ýmsu íþróttagreinum, og reyndi að fella öll átján aðildarfélögin inn í erindin. Erindin eru sjö talsins, sem vísar í 70 ár, en vonandi mun ljóðið samt lifa áfram. Fólk getur líka dundað sér við að finna sína grein í textanum. Skemmtileg myndskreyting Marellu Steinsdóttur hjálpar þar ti,“ segir Sigurbjörg en ljóðið er að finna á glæsilegu veggspjaldi í íþróttahúsinu við Vesturgötu.

mix-capitalism-1

 

Fólk getur líka dundað sér við að finna sína grein í textanum.

„Hugmyndin var að senda ljóðið til bæjarbúa í tilefni 70 ára afmælisins, en síðar fékk einhver þessa ídeu, að setja það upp á þennan fína vegg á Vesturgötunni. Anddyrið var málað og tekið í gegn og nú tekur þetta ansi fallega á móti gestum,“ segir Sigubjörg og hún segir að viðbrögðin hafi komið henni skemmtilega á óvart.

„Fólk virðist tengja vel við erindin og taka til sín. Það er einmitt líka ætlunin, að þau séu hvetjandi, eins konar hetjuljóð. Á afmælishátíðinni var ein sem sagði mér af íþróttakrökkum sem nota anddyrið til að hita upp og þau voru strax farin að kyrja tiltekið erindi á meðan þau hoppuðu. Það fannst mér magnað.“

Þröstur Stefánsson, faðir Sigurbjargar, var um tíma formaður ÍA og hann var einn fremsti knattspyrnumaður ÍA um margra ára skeið. Sigurbjörg hefur því kynnst ÍA af eigin raun og er uppalinn í félaginu eins og svo margir Skagamenn.

iahatid2016-007

Það var gaman að koma í húsið á afmælishátíðina


„Ég æfði lengi badminton í Íþróttahúsinu við Vesturgötu, og líka dálitla knattspyrnu. Svo var pabbi formaður ÍA um árabil þegar ég var lítil og ég skottaðist oft með honum „niður í hús“ eins og það hét, ýmist til þess að horfa á leiki, líta eftir hlutunum eða spjalla við fólk.

Það var gaman að koma í húsið á afmælishátíðina um daginn, eftir langa fjarveru, og sjá hvað starfið er fjölbreytt og frábært enn í dag,“ sagði Sigurbjörg en ÍA -ljóðið er hér í heild sinni.

Spyrna knöttum,
kljúfa vötn,
fljóð og fimir drengir.

Lyfta járnum,
leiða hross,
óttalaus afl sitt reyna.

Sendast fjaðrir
og svitaperlur
langt yfir net norður.

Herðast lófar
um hjól stýris,
skotvissir skerpa mið.

Fyllast af lífi
fjalir og pallar
hetjur skal ungar hvetja.

Ef heltist úr lest
leiður, einn,
skal þegar að honum hlúð.

Kylfum veifa
og klifra um sali
ungir og aldurhnignir.

Glíma við storma,
stökkva hátt
– glóa í myrkri gulir.

Verjast sóknum,
vaða sand,
kasta í hjarta körfu.

Þeytast keilur,
þyngjast högg,
glymur í gráum klettum.

Já, slíkt er úthald
Akurnesinga
að ókunnir undrast.

Hafa þeir fjall sitt
með höndum berum
sjálfir af röskleik reist?

Þjóta í hópum
þrekmenn kátir
ótrauðir áfram veg.

Hlaðast sögur
í háa stafla.
Virðum og vöndum leik!

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Við mælum með því að hoppa við lesturinn og kyrja hátt og snjallt.

Sigurbjörg, sem er fædd árið 1973 á Akranesi, hefur skrifað ljóðabækur, skáldsögur, leikrit og prósa allt frá árinu 1999. Sólar saga frá árinu 2002 hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar   Sigurbjörg hefur fengið fleiri viðurkenningar fyrir verk sín, meðal annars var ljóðabókin Hnattflug valin besta ljóðabók ársins af starfsfólki bókaverslana árið 2000, ljóðsagan Blysfarir hlaut Fjöruverðlaunin 2008 og Brúður var tilnefnd til Menningarverðlauna DV 2010.

Ljóð Sigurbjargar hafa verið þýdd á ein tólf tungumál í tengslum við bókmenntaþing, ljóðahátíðir og útgáfu safnrita um Evrópu þvera.

 

mix-capitalism-1