Hanna Þóra lofar fallegum tónleikum í Hörpunni

„Þetta er liður í starfi Íslensku óperunnar, ég lofa fallegum tónleikum, en á efnisskránni eru þrjú ljóð eftir Grieg, tvær aríur og einn dúett úr óperunni La Bohéme eftir Puccini. Elmar Gilbertsson, tenórsöngvari, sem er að heilla alla upp úr skónum með sinni fallegu rödd mun syngja dúettin O soave fantciulla með mér,“ segir Hann Þóra Guðbrandsdóttir söngkona frá Akranesi um tónleikana Kúnstpásu sem fram fara í hádeginu þriðjudaginn 13. desember í Norðurljósasal Hörpu í Reykjavíki.

Tónleikarnir hefjast kl. 12:15 og er þetta kjörið tækifæri fyrir alla þá fjölmörgu Skagamenn sem vinna í Reykjavík að nýta hádegishléið í Hörpunni. „Ég lofa góðri skemmtun, tónleikarnir eru um hálftími að lengd, og það er frítt inn,“ segir Hanna Þóra en ekki er um að ræða hefðbundna jólatónleika.

Hanna Þóra og Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari:

„Ég ákvað að vera ekki með jólatónleika í ár, því mig langaði að gera eitthvað allt annað. Það er mikið af jólatónleikum í boði og mér fannst ég ekki þurfa að bæta við það – þrátt fyrir að vera mikið jólabarn sjálf. Það er reyndar tenging við jólin þar sem óperan La Bohéme gerist einmitt á þessum árstíma. Nú svo ef fólk verðu í stuði og klappar mig upp er aldrei að vita hvað ég mun syngja sem aukalag,“ segir Hanna Þóra sem hóf söngnám á Akranesi þegar hún var 16 ára gömul.

„Ég hafði áhuga á söng og langaði að verða poppsöngkona. Ég fór því í nokkra söngtíma til að bæta röddina. Það var markmiðið að stofna hljómsveit en ég samdi allavega tvö ástarlög að mig minnir,“ segir Hanna Þóra þegar hún er innt eftir því hvernig hún byrjaði í söngnum.

Ég hef alltaf verið með stóra og mikla rödd

„Ég var ekkert að velta óperusöng fyrir mér þegar ég var yngri, vissi ekkert um það form. Í raun var það ekkert mjög eftirsóknarvert að vera í tónlist á þeim árum – líkt og það er í dag. Það voru allir í íþróttum á Akranesi og fáir að spá í tónlist. Ég hef alltaf verið með stóra og mikla rödd, og hana hef ég notað við flest tækifæri frá því ég var smákrakki. Ég grét allt fyrsta árið mitt og fékk því fína æfingu fyrir lungun. Þegar ég byrjaði í Tónlistarskólanum á Akranesi þá var það Sigríður Jónsdóttir kennari sem hvatti mig mest til að gera eitthvað meira með röddina mína. Ég fór því í inntökupróf í Söngskólanum í Reykjavík sem gekk vel og ég fór að læra undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur.“

15397835_10154073824511190_1769959834_o

Hanna Þóra segir að fyrstu árin hafi verið erfið og bakgrunnur hennar hafi verið allt öðruvísi en samnemenda hennar. „Þetta var umhverfi sem ég var ekki vön, það voru allir með nótnalesturinn og tónheyrnina á hreinu, og höfðu eflaust stefnt að þessu frá því að þau voru krakkar. Ég vissi ekkert um þessa hluti og var því byrja frá grunni – og ég var eiginlega bara með bakið upp við vegginn. Ég þurfti að leggja mikið á mig til að komast áfram og ég útskrifaðist úr Söngskólanum árið 2005.“

Það er í mörg horn að líta hjá Hönnu Þóru en hún er á kafi í prófalestri í sjúkraliðanáminu sem hún stundar samhliða söngnum. Móðir hennar, Þuríður Óskarsdóttir, er samferða dóttur sinni í náminu og þær mæðgur stefna á útskrift saman vorið 2017.

Hanna Þóra og Þuríður móðir hennar stefna á að útskrifast saman í vor

„Mamma, sem er 68 ára gömul, var byrjuð í þessu námi þegar ég byrjaði fyrir ári síðan. Þetta er frábært nám og ég hef aðeins spýtt í lófana í fjölda námsgreina að undanförnu til þess að ná að útskrifast á sama tíma og mamma í vor. Þetta er strembið en skemmtilegt en síðasta prófið er 14. desember. Þar að auki þá stöndum við fjölskyldan í flutninum á Akranesi en við keyptum hús í haust og erum að stækka aðeins við okkur. Þetta er allt að gerast á sama tíma,“ segir Hanna Þór en maðurinn hennar heitir Guðmundur Sveinsson og saman eiga þau þrjár dætur.

„Dætur okkar eru ótrúlega þolinmóðar við mömmu sína þegar svona tarnir standa yfir. Ég er svo stolt af þeim, en þær æfa allar fótbolta, og eru í tónlist og leiklist. Þessar elskur hafa gert mig sterkari í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur.“

Framtíðin er spennandi segir Hanna Þóra. „Ég hlakka til að fara að starfa sem sjúkraliði á góðum vinnustað. Samhliða því ætla ég að syngja áfram og efla mig sem söngkonu, ég verð á toppnum þegar ég verð fertug og það styttist í það.“

15515676_10154073840501190_1951895980_o-1
Hanna Þóra hefur sótt ýmis námskeið í söng frá því hún útskrifaðist árið 2005 og komið víða við í söng sínum.

„Ég hef hitt marga kennara, farið á námskeið erlendis í Berlín,Kaupmannahöfn og Osló. Ég tók þátt þremur uppfærslum í Óperustúdóinu þar sem við fengum að taka þátt í sýningum sem er hugsuð sem æfingaferli fyrir nýútskrifaða nemendur og þá sem eru enn í söngnámi. Í þriðju uppfærslunni fékk ég aðalhlutverkið í Cosí fan Tutte eftir Mozart. Þetta var frábær sýning sem mikið var lagt í. Ég er með fasta stöðu í kórnum hjá Óperunni hér á landi og sungið sem einsöngvari á þeirra vegum,“ segir Hanna Þóra en hún er mikið jólabarn eins og áður hefur komið fram.

Ég hlusta mikið á jólalög og er löngu byrjuð

„Jólin eru ósköp hefðbundin hjá mér. Ég er mikil fjölskyldu kona og eru sterk fjölskyldubönd í kringum mig. Því eru jólinn stór tími fyrir mér og hlakka ég mikið til. Ég er ekki búin að baka neitt og er ekki viss um að ég geri mikið af því þessi jólin. Mögulega mun ég hendi í spesíurna um næstu helgi. Bara til að fá smá jólalykt í nýja húsið. Ég hef aðeins verið að reyna að hengja upp jólajósin með fram því að taka upp úr kössunum en ég reikna ekki með því að allt fína skrautið mitt fari upp um þessi jól. Það koma jól eftir þessi jól og nógur tími til að hengja allt skrautið upp þá. Ég hlusta mikið á jólalög og er löngu byrjuð. Ég á mjög mörg uppáhalds jólalög en það er eitt sem mér þykkir meira vænt um og það er „Jólin allstaðar“ í fluttningi systkinanna Vilhjálms Vilhjálmssonar og Ellýar Viljhjálms. Ég hef stundum sungið í kirkjunni á aðfangadag. Mér finnst það dásamlegt og mjög hátíðlegt.

Ættfræðitréð:
Hanna Þóra er dóttir hjónanna Guðbrandar Þorvaldssonar frá Ólafsfirði og Þuríðar Óskarsdóttur frá Beitistöðum Hún er næst yngst 5 systkinna en hún á þrjár systur og einn bróður  Hanna er gift Guðmundi Sveinssyni og eiga þau þrjár dætur. Birgitta Nótt 15 ára, Dagbjört Líf 12 ára, og Jóhanna Vilborg 7 ára.