Jólaóskirnar eru tvær hjá Árna Snæ

„Ég held í vonina um að geta verið með eitthvað með liðinu í sumar en framundan er mikil endurhæfing og vinna,“ segir Árni Snær Ólafsson markvörður ÍA liðsins í knattspyrnu en hann varð fyrir óhappi í æfingaleik á dögunum gegn HK.

„Ég var að lenda á vinstri fætinum og ætlaði að spyrna mér frá líkt og ég hef oft gert áður. Þá small eitthvað í hnénu á mér og ég fann að það hafði eitthvað gerst sem átti ekki að gerast,“ bætir Árni Snær við en hann er með slitið fremra krossband í hné og þarf að fara í nokkuð viðamikla aðgerð rétt fyrir jólin.

„Ég fer í aðgerðina 22. desember hjá Hauki Björnssyni í Orkuhúsinu. Á undanförnum vikum hef ég unnið í því að halda öllum vöðvum á þessu svæði eins sterkum og hægt er. Ég verð á hækjum í tvær vikur eftir aðgerðina og síðan byrjar mikil endurhæfing að ná hreyfigetu og styrk aftur í hnéð,“ bætir Árni Snær við en hann var einn besti leikmaður liðsins á síðasta sumri.

Ég vona að vinir mínir skili sér heilir heim frá Tenerife

Árni Snær stundar nám í rafmagnstæknifræði við Háskólann í Reykjavík og er hann á þriðja ári í því námi.

Jólin verða öðruvísi hjá Árna Snæ þetta árið en hann segir að tvennt sé efst á óskalistanum fyrir þessi jól.„ Í fyrsta lagi að aðgerðin heppnist vel og í öðru lagi að vinir mínir sem eru á Tenerife komi allir heilir heim,“ sagði Árni Snær.

 

Ættfræðitréð:
Árni Snær er fæddur 16. ágúst 1991. Foreldrar hans eru þau Ólafur Páll Sölvason og Jóhanna Árnadóttir
Árni á tvær systur sem heita Ragnheiður og Ástrós. Afi og amma Árna í móðurætt: Árni S. Einarsson og Guðbjörg Halldórsdóttir. Afi og amma í föðurætt: Sölvi S. Pálsson og Ragnheiður Ólafsdóttir.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér aðgerðirna sem Árni Snær er að fara í þá eru hér fyrir neðan skýringarmyndbönd af Youtube.