Mætir Tommi Rúnar með göngugrindina á Blúsboltahátíðina?

364 dagur ársins 2016 verður eftirminnilegur á Flórída-Skaganum enda er 30. desember haldinn hátíðlegur víðsvegar um veröldina. Að mati ritstjórnar skagafrettir.is er of lítið gert úr þessum hátíðisdegi. Sem dæmi má nefna þá fór fram fyrsta Blúsboltahátíðin á Akranesi fram fyrir 30 árum þann 30. des og í ár verður engin breyting þar á.

Við hér á skagafrettir.is hvetjum alla Skagamenn til þess að fjölmenna á þessa glæsilegu kvöldstund sem fram fer á Gamla Kaupfélaginu föstudaginn 30. desember. Kjarninn í hljómsveit kvöldsins á ættir sínar að rekja á Akranes og þar fara fremstir í flokki Andrea Gylfadóttir söngkona, Eðvarð Lárusson gítarleikara, Birgir Baldursson trommari og Sigurþór Þorgilsson bassaleikari.

„Þetta kvöld er tileinkað Tomma Rúnari (Tómasi Rúnari Andréssyni) sem kom þessu kvöldi á kortið fyrir 30 árum ásamt þeim Rúnari Júlíussyni og Tryggva Hübner. Frá þeim tíma hefur þessi hátíð verið fastur hluti í tilveru okkar hér á Akranesi,“ segir Sigurþór Þorgilsson bassaleikir í samtali við skagafrettir.is.

Frá Blúsboltahátíðinni í fyrra. Mynd/Ómar Lárusson.
Frá Blúsboltahátíðinni í fyrra. Mynd/Ómar Lárusson.

„Þegar Rúnar Júl féll frá var ákveðið að halda verkefninu áfram og í ár er það glæsilegur hópur sem mætir til leiks á sviðið á Gamla Kaupfélagið,“ bætir Sigurþór við en Tommi Rúnar alls ekki fjarri góðu gamni þrátt fyrir erfið veikindi að undanförnu. „Tommi Rúnar fór í stóra hjartaaðgerð og er á góðum batavegi á Grensásdeildinni í Reykjavík. Hann er aðalmaðurinn í þessu samt sem áður og það gæti alveg gerst að Tommi Rúnari mæti á afmælishátíðina með göngugrindina sér til stuðnings. Hann mun gera allt til þess að mæta,“ bætti Sigurþór við.

Hljómsveitin á 30 ára Blúsboltahátíðinni á Akranesi verður þannig skipuð:

Andrea Gylfadóttir, söngur.
Halldór Bragason, gítar, söngur.
Eðvarð Lárusson, gítar.
Tryggvi Hübner, gítar.
Einar Rúnarsson, hammond.
Birgir Baldursson, trommur.
Sigurþór Þorgilsson, bassi.

Gamla Kaupfélagið opnar klukkan 21:00 og tónleikarnir byrja klukkan 22:00. Miðaverð 2.500 kr.
og ath. það er ekki posi í miðasölunni.

Eðvarð Lárusson í góðum gír á Blúsboltahátíðinni. Mynd/Ómar Lárusson.
Eðvarð Lárusson í góðum gír á Blúsboltahátíðinni. Mynd/Ómar Lárusson.