Hlýleg stemning á opnunardegi Lesbókin Café

Það var létt yfir eigendum og gestum á Lesbókin Café sem opnaði með formlegum hætti í dag, föstudaginn 6. janúar við Akratorgið á Akranesi. Christel Björg Rúdolfsdóttir og Guðleifur Rafn Einarsson eru eigendur staðarins og máttu þau lítið vera að því að ræða við skagafrettir.is vegna anna þegar við litum þar við rétt eftir hádegi í dag.

Boðið var á upp á gómsæta gúllassúpu og heimabakað brauð í hádeginu í dag en fjölbreytt úrval veitinga er í boði á Lesbókin Café, kökur og kruðirí ásamt öðrum léttum veitingum.

„Við erum ánægð með viðtökurnar og það komu meira að segja nokkrir ferðamenn hingað strax og við opnuðum. Þetta er spennandi verkefni og við ætlum að njóta þess að gera eitthvað sem okkur hefur lengi langað að gera,“ sagði Christel.

Eigendurnir hafa unnið hörðum höndum á undanförnum vikum við breytingar á staðnum og er útkoman stórglæsilegt, hlýlegt og notalegt kaffihús í hjarta Akraness.

Opnunartími Lesbókin Café verður frá kl. 9.30 virka daga og um helgar verður einnig opið frá kl. 12.00. Guðleifur segir að þau ætli að láta það ráðast hvernig formlegur opnunartími verður. „Það er opið frá 9.30 fram til 18 á virkum á dögum og frá 12-17 um helgar. Ef það er góð stemning þá verður bara opið lengur. Við eigum eftir að sjá hvernig þetta þróast,“ sagði Guðleifur.

Við hér á skagafrettir.is óskum eigendum Lesbókin Café til hamingju með framtakið og stólum á að Skagamenn verði duglegir að nýta sér það sem er í boði á staðnum.

Lagt á ráðin og lokaundirbúningur fyrir kjörið á íþróttamanni ársins á Akranesi á Lesbókin Café. Mynd/skagafrettir.is
Lagt á ráðin og lokaundirbúningur fyrir kjörið á íþróttamanni ársins á Akranesi á Lesbókin Café. Mynd/skagafrettir.is
img_3185
Anna Halldórsdóttir var ánægð með súpuna á Lesbókin Café. Mynd/skagafrettir.is
img_3161
Græjur og list á Lesbókin Café. Mynd/skagafrettir.is
img_3167
Það er fjölbreytt úrval veitinga á Lesbókin Café. Mynd/skagafrettir.is
img_3171
Eigendurnir fengu hamingjuóskir frá gestum á opnunardeginum. Mynd/skagafrettir.is
img_3174
Christel og Guðleifur brostu breitt á opnunardegi Lesbókar Café. Mynd/skagafrettir.is
img_3184
Súpa og brauð á 1290. Og allskonar góðgæti á hóflegu verði á Lesbókin Café. Mynd/skagafrettir.is