Tryggvi Hrafn Haraldsson, tvítugur leikmaður ÍA, hefur verið valinn í íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu, sem leikur vináttulandsleik gegn Mexíkó í næstu viku. Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari valdi Tryggva Hrafn í leikmannahópinn en hann er einn af sjö leikmönnum sem hafa ekki leikið A-landsleik áður.
„Það verður að segjast að þetta hafi komið skemmtilega á óvart. Heimir hringdi í mig bara í morgun, svo það er ekki lengra síðan en það. Ég þurfti að klípa mig tvisvar til þess að ná áttum,“ sagði Tryggvi við mbl.is en hann hefur ekki leikið með yngri landsliðum Íslands.
Tryggvi Hrafn á ekki langt að sækja hæfileikana því Haraldur Ingólfsson faðir hans lék 20 A-landsleiki á ferlinum og Jónína Víglundsdóttir móðir Tryggva lék 11 A-landsleiki á sínum ferli.
Ekki er um opinberan landsleikjadag að ræða og eru því leikmenn landsliðsins frá liðum í Skandinavíu og sjö þeirra eru úr Pepsi-deildinni á Íslandi.
Leikurinn fer fram í Las Vegas í Bandaríkjunum á miðvikudaginn í næstu viku.
Markverðir:
Ingvar Jónsson, Sandefjord.
Frederik Schram, Roskilde*
Varnarmenn:
Hallgrímur Jónasson, Lyngby.
Kristinn Jónsson, Sarpsborg 08.
Böðvar Böðvarsson, FH.
Orri Sigurður Ómarsson, Valur.
Viðar Ari Jónsson, Fjölnir.
Daníel Leó Grétarsson, Álasund.*
Adam Örn Arnarson, Álasund.*
Miðjumenn:
Davíð Þór Viðarsson, FH.
Aron Sigurðarson, Tromsö.
Kristinn Steindórsson, Sundsvall.
Oliver Sigurjónsson, Breiðablik.
Kristinn Freyr Sigurðsson, Sundsvall.*
Tryggvi Hrafn Haraldsson, ÍA.*
Sóknarmenn:
Aron Elís Þrándarson, Álasund.
Kristján Flóki Finnbogason, FH.*
Árni Vilhjálmsson, Jönkopings Södra.*
*eru nýliðar og hafa ekki leikið með A-landsliðinu áður.