Nemendur í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi hafa svo sannarlega staðið sig vel að undanförnu. FVA stóð uppi sem sigurvegari í „West Side“ þar sem að framhaldsskólar á Vesturlandi kepptu í ýmsum greinum. Keppnin hófst s.l. haust og voru Menntaskóli Borgarfjarðar og FVA jöfn að stigum fyrir lokakeppnina sem fram fór á fimmtudaginn í síðustu viku. Fjölbrautaskóli Snæfellinga tekur einnig þátt í „West Side“
Spennan hélt áfram í keppni FVA og MB um sigurinn. Keppt var í borðtennis, pool, fótboltaspili og „minute to win it“. Staðan var enn jöfn eftir þá keppni og var þá ákveðið að láta „edrú potinn“ ráða úrslitum.
Nemendur FVA voru
með 45,5% hlutfall í „edrúpottinum“
„Edrú potturinn“ er með þeim hætti að nemendum gefst tækifæri til að blása í áfengismæli á dansleikjum. Þeir sem standast „prófið“ og eru edrú komast þar með í pottinn og þar eru oft á tíðum veglegir vinningar í boði.
Úrslitin réðust á hlutfallslegum fjölda nemenda í „edrúpottinum“ á ballinum um kvöldið. Nemendur FVA voru með 45,5% hlutfall og unnur þar með sigur í keppninni.
Á fésbókarsíðu FVA er nemendum hrósað í hástert enda ástæða til.
„Við erum ótrúlega stolt af okkar fyrirmyndar nemendum og óskum þeim innilega til hamingju með sigurinn!“