Valdís Þóra Jónsdóttir byrjar vel á fyrsta móti ársins á LET Evrópumótaröðinni í golfi. Valdís lék á pari vallar á öðrum keppnisdeginum í Ástralíu eða 73 höggum og er hún samtals á -2 (71-73). Valdís komst örugglega í gegnum fyrri niðurskurðinn á þessu móti og er í sætum 35.-44. eins og staðan er núna. Hún þarf að vera á meðal 35 efstu eftir þriðja hringinn til þess að komast inn á lokahringinn á sunnudaginn. Hún er hinsvegar örugg með að fá verðlaunafé og stig á LET Evrópumótaröðinni.
Atvinnukylfingurinn úr Leyni á Akranesi fékk tvo fugla og tvo skolla á öðrum keppnisdeginum. Alls hefur hún fengið fimm fugla og þrjá skolla, og aðrar brautir hefur hún leikið á pari.
„Staðan er allt í lagi eftir 36 holur en ég setti ekki pútt ofaní á öðrum hringnum. Ég var í fínum færum, hitti 17 flatir í tilætluðum höggafjölda, og var með 35 pútt, sem er of mikið. Þau hljóta að fara að detta. Aðstæður voru svipaðar í dag og á fyrsta hringnum. Það bætti aðeins í vindinn eftir hádegi eins og það gerir hér á þessum slóðum. Creek völlurinn sem ég lék í dag er með fleiri vötn en Beach völlurinn. Vindáttin var með þeim hætti í dag að það var erfiðara að ná inn á par 5 holurnar í tveimur höggum – það var auðveldara í gær,“ sagði Valdís Þóra Jónsdóttir við golf.is snemma í morgun að íslenskum tíma.
Heimasíða mótsins þar sem skor keppenda er uppfært:
Þetta er í fyrsta sinn sem Valdís Þóra leikur á LET Evrópumótaröðinni en hún er þriðja íslenska konan sem tryggir sér keppnisrétt á sterkustu mótaröð Evrópu.
Mótið er sérstakt og sögulegt á sama tíma þar sem að keppt er í karlaflokki á sama tíma og mótið er fram. PGA í Ástralíu er með atvinnumót fyrir karla samhliða mótinu á LET og er leikið á sömu völlunum.
Verðlaunaféð er það sama hjá körlunum og konunum, og er þetta í fyrsta sinn sem verðlaunféð er jafnmikið í karla – og kvennaflokki á atvinnumótaröð í golfi. Heildarverðlaunaféð er um 45 milljónir kr. á báðum mótaröðunum.