„Hef hlakkað til að mæta í vinnuna alla daga“

„Ég hef átt frábæran tíma hér á Akranesi og ég er mjög þakklát fyrir það traust sem ég hef notið hjá bæjarfulltrúum bæði hjá núverandi og síðustu bæjarstjórn. Ég var alls ekki í atvinnuleit en þegar starf sviðstjóra Reykjavíkurborgar var auglýst ákvað ég að sækja um en ég hafði hugsað mér að söðla um við lok þessa kjörtímabils. Ég viðurkenni að ég fékk mikla hvatningu frá dætrum okkar, sem hafa saknað þess að hafa okkur ekki í nágrenninu en þær búa allar í Reykjavík.

Ég ræddi við oddvita flokkanna hér á Akranesi áður en ég sótti um starfið þannig að þau eru búin að vita að þetta gæti orðið niðurstaðan um nokkurra vikna skeið. Á allra næstu dögum förum við sameiginlega yfir tímasetningu á starfslokum mínum,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Akraness í viðtali við skagafrettir.is. Regína tekur við starfi sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar á næstunni en hún hefur verið bæjarstjóri á Akranesi s.l. fjögur ár.

Aðspurð um hvort starfið í Reykjavík hafi verið of stórt til þess að sleppa því að sækja um segir Regína að um áhugavert og krefjandi starf sé að ræða.

„Þarna er um að ræða velferðarþjónustu sem veitir um 20 þúsund manns þjónustu á hverju ári. Sviðið veltir 26 milljörðum á ári og það eru um 2.500 starfsmenn sem starfa á sviðinu. Það er mikil áskorun framundan í stórum málaflokkum eins og málefnum aldraðra og nauðsynlegt að ná samkomulagi við ríkið um úrbætur og skynsamlega verkaskiptingu.“

Regína segir að hún hafi átt frábæra tíma á Akranesi og hún er þakklát fyrir það traust sem henni

hafi verið sýnt hjá bæjarfulltrúum, bæði hjá núverandi og síðustu bæjarstjórn.

„Við höfum unnið saman að mörgum verkefnum. Mér er kannski efst í huga að rekstur bæjarfélagsins stendur vel og okkur hefur tekist að halda úti góðri þjónustu þrátt fyrir bágan fjárhag eftir efnahagshrunið. Það má samt lítið útaf bera og við finnum núna að sjómannaverkfallið hefur klárlega áhrif á útsvarstekjur bæjarfélagsins. Ég er gríðarlega ánægð með niðurstöðuna varðandi lífeyrisskuldbindingu Höfða en þar höfðu margir lagt hönd á plóg í gegnum árin og niðurstaðan í því máli skiptir bæjarfélagið mjög miklu máli. Ég hef lagt mikla áherslu á stjórnsýsluna, að hér fari saman sú mikla og góða reynsla sem fyrir er hjá starfsfólki bæjarskrifstofunnar og að við öflum okkur nýrrar þekkingar og vinnuaðferða í bland.

Ég er mjög ánægð með þann viðsnúning sem hefur orðið á miðbænum á Akranesi þar sem fjöldi gamalla húsa hafa fengið andlitslyftingu.

Við fengum sementsreitinn í fangið fljótlega eftir að ég tók til starfa. Það verkefni hefur verið töluverð áskorun sem og önnur skipulagsmál, svo sem málefni Laugafisks. Kútter Sigurfari hefur líka verið áskorun þar sem það kostar mjög mikla fjármuni að halda skipinu við.

Ég sé framtíð Akranes sem mjög bjarta, hér fjölgar íbúum og ég var svo heppin að fá sjö þúsundasta bæjarbúann í afmælisgjöf á síðasta ári, eða 30 júní.“

Bæjarstjórinn dregur ekkert undan þegar hún lýsir Akranesi sem frábærum bæ.

„Ég hugsaði oft um það hvað samfélagið er ríkt af góðu fólki. Ég skil unga Skagamenn mjög vel sem snúa heim aftur til að ala börnin sín upp á Akranesi því þetta er mjög barnvænt samfélag með flottu fagfólki á öllum póstum í uppeldismálunum sem og í tónlistar og íþróttastarfi.

Ingibjörg Pálmadóttir, Regína og Lilja Alfreðsdóttir fyrrum utanríkisráðherra og núverandi þingmaður Framsóknarflokksins.
Ingibjörg Pálmadóttir, Regína og Lilja Alfreðsdóttir fyrrum utanríkisráðherra og núverandi þingmaður Framsóknarflokksins.

Verkefnin sem eru framundan eru mörg hjá Akraneskaupstað og segir Regína að það sé tilhlökkunarefni að sjá breytingarnar sem eigi eftir að verða á Sementsreitnum.

„Í þessari viku verður opinn fundur um Dalbrautarreit og Sementsreitinn og þar verður kynnt deiliskipulag en með því verður heimilt að byggja hundruðir nýrra íbúða. Uppbyggingin mun taka áratugi en það er mikilvægt að hafa skýra framtíðarsýn hvað svæðin varðar. Ég á von á því að niðurrif á „Efnisgeymslunni“ svokallaðri hefjist í vor eða sumar. Ég hef sagt í gríni að ef það er eitthvað sem ég vil alls ekki missa af þá er það að sjá fyrstu veggina fjúka.

Ég á von á því að niðurrif á „Efnisgeymslunni“ svokallaðri hefjist í vor eða sumar. Ég hef sagt í gríni að ef það er eitthvað sem ég vil alls ekki missa af þá er það að sjá fyrstu veggina fjúka.

Í fjárfestingaráætlun fyrir árið 2017 er sett fjármagn í undirbúning að byggingu nýs fimleikahúss. Bæjarstjórn hefur ekki ákveðið hvort húsið verði byggt við Vesturgötuna eða á Jaðarsbökkum en ég á von á að sú ákvörðun liggi fyrir fljótlega. Við höfum líka verið í viðræðum við golfklúbbinn Leyni og félag eldri borgara á Akranesi um byggingu frístundahúss. Það mannvirki gæti nýst sem golfskáli annars vegar og fyrir frístundir eldri borgara hinsvegar. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun en þetta eru hugmyndir sem margir eru hrifnir af og væri einstakt á landsvísu.“

Að lokum þakkar Regína samstarfsfólki sínu fyrir ferðalagið undanfarin ár.

„Ég hef átt afar gott samstarf við bæjarfulltrúana á Akranesi, samstarfsfólk á bæjarskrifstofunni og forstöðumenn stofnana og yfirleitt alla þá starfsmenn sem ég hef verið í samskiptum við. Mér finnst vera valinn maður í hverju rúmi og mikill mannauður fólgin í starfsmönnum Akraneskaupstaðar. Ég mun sakna þeirra mjög mikið enda hef ég hlakkað til að mæta í vinnuna alla daga frá því að ég tók til starfa. Auðvita hafa komið brekkur í tengslum við vinnuna eins og gengur og gerist en maður verður að gæta þess að taka hlutina ekki of persónulega og reyna að setja sig í spor annarra,“ segir Regína Ásvaldsdóttir.

Sushi
Sushi