„Ég flutti frá Akranesi árið 2013 en það er alltaf á planinu að koma aftur, það er gott að búa, hæfilega stór bær, það er bara spurning um tímasetningu,“ segir söngkonan Rakel Pálsdóttir sem verður á stóra sviðinu á laugardaginn í úrslitum Söngvakeppni RÚV. Rakel syngur þar lagið Again ásamt Arnari Jónssyni en lagið er eftir Hólmfríði Ósk Samúelsdóttur.
„Ég á góðar minningar frá Akranesi og þær skemmtilegustu var tíminn í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Þar var ég að leika í leikritum og syngja. Það fannst mér gríðarlega skemmtilegt. Það muna kannski margir eftir mér úr Olís við höfnina en þar vann ég lengi ásamt nánast öllum vinkonum mínum. Sá staður geymir yndislegar minningar, við vorum þar öllum stundum, hvort sem við vorum að vinna eða ekki. Við erum á þeirri skoðun að það muni allir eftir „stuðboltunum“ úr Olís,“ segir Rakel sem starfar sem þroskaþjálfi í þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis.
Ég á góðar minningar frá Akranesi og þær skemmtilegustu var tíminn í
Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, FVA.
„Ég vinn einnig á skammtímavistun fyrir fötluð börn en það er nánast 100% vinna að taka þátt í Söngvakeppninni, og þar að auki á ég 1 árs fjörkálf sem tekur sinn tíma og orku.“
Alls eru sjö lög sem keppa til úrslita á laugardaginn í beinni útsendingu á RÚV. Rakel segir að keppnin hafi verið mjög skemmtileg og allt í kringum hana.
„Það er mikið gert fyrir flytjendur, við vorum í þætti hjá Gísla Marteini, og mikið af fjölmiðlaviðtölum. Mér finnst þetta ótrúlega skemmtileg að vera syngja fyrir framan alþjóð í beinni útsendingu.“
Rakel segir að hún hafi ávallt verið að raula lög og syngja en 13 ára gömul kom hún fyrst fram.
Ég tók þátt í hæfileikakeppni í 8. bekk og síðan sigraði ég í Hátónsbarkakeppninni á Akranesi og Söngvakeppni Samfés árið 2004. Þá byrjaði boltinn að rúlla.
„Ég tók þátt í hæfileikakeppni í 8. bekk og síðan sigraði ég í Hátónsbarkakeppninni á Akranesi og Söngvakeppni Samfés árið 2004. Þá byrjaði boltinn að rúlla. Eftir þá keppni komu verkefnin á færibandi. Síðar fór ég í tónlistarnám hjá FÍH, þar kynntist ég mörgum í tónlistinni. Og ég hef verið með sönginn sem aukavinnu í mörg ár og alltaf að bætast við ný verkefni. Ég er t.d. að taka upp gamalt lag með Melchoir sem ég klára á næstunni og kem í spilun. Ég vona bara að fá fleiri spennandi tónlistarverkefni inn á borð til mín á næstunni.“
Undirbúningurinn fyrir lokakvöldið stendur sem hæst hjá Rakel og Arnari.
„Við erum með fjórar bakraddir og hittumst reglulega til að æfa okkur. Það fylgir þessu ýmislegt annað, útréttingar og slíkt. Redda hinu og þessu, fylgihlutum fyrir fötin, og listinn er endalaus. Ég þarf líka að gæta þess að hlífa röddinni, og halda mig fjarri þeim sem eru veikir í kringum mig.“
Ættartréð:
Rakel Pálsdóttir er 28 ára Skagamær. Foreldrar hennar eru Páll Halldór Sigvaldason og Unnur Sigurðardóttir. Rakel á einn bróðir en hann heitir Flosi Pálsson og er 32 ára.Sambýlismaður Rakelar er Aron Örn Brynjólfsson, og eiga þau dótturina Unni Signý sem er 17 mánaða og stjúpsonur Rakelar og sonur Arons er Bæringur Elís en hann er 5 ára.