Það eru spennandi tímar framundan á Langasandi á Akranesi, þar sem verkefnið „Guðlaug við Langasand“ fékk 30 milljóna kr. styrk. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stendur á bak við styrkinn sem kemur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Áætlað er að byggja heita laug sem verður staðsett í grjótvörn við Langasand á Akranesi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akraneskaupstað.
Mannvirkið samanstendur af útsýnispalli, heitri laug og grynnri laug sem nýtur vatna úr yfirfalli efri laugarinnar.
Í tillögu stjórnar að styrkjum ásamt rökstuðningi fyrir úthlutun segir um verkefnið „Nýstárleg og áhugaverð hugmynd sem gæti orðið að nýjum ferðamannasegli á Akranesi og stutt við þróun baðferðamennsku á landsvísu“.
Alls fengu 58 verkefni styrk en hér má skoða fréttatilkynningu á heimasíðu Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem gefin var út fyrr í dag.
Fyrir aðra áhugasama um verkefnið má hér skoða skýrslu sem Basalt gaf út árið 2015 um Guðlaugu.