Slitnir Strengir fagna útgáfu á nýju efni í Tónbergi

„Við hófum upptökur fyrir ári síðan og það eru aðeins nokkrir dagar þangað til við fáum hlómdiskinn í hendurnar. Við finnum fyrir frábærum stuðningi fyrir þetta verkefni og útgáfutónleikana sem eru á dagskrá 17. og 18. mars í Tónbergi á Akranesi,“ segir Ása Katrín Bjarnadóttir meðlimur í þjóðlagasveitinni Slitnum Strengjum sem er að fagna útgáfu á nýjum geisladiski um næstu helgi. Tónleikarnir eru hluti af írskum vetrardögum sem haldnir eru á Akranesi 16.-18. mars og er þetta í annað sinn sem þessi hátíð fer fram. Nánar um írska vetrardaga hér: 

„Verkefnið er afar kostnaðarsamt og við höfum notað Karolinafund til þess að safna. Það hefur tekist mjög vel og er uppselt á fyrri tónleikana þann 17. mars en það eru enn til miðar þann 18. Það seldist upp á mettíma á fyrri tónleikana.“

Alls eru 16 félagar í Slitnum Strengjum sem skilgreina sig sem syngjandi fiðluleikara og undirleikara.

Ragnar Skúlason er stjórnandi Slitinna Strengja.

„Við spilum írska og skoska tónlista í bland við þjóðlög frá öllum heimshornum ásamt nútíma poppi í nýjum búning,“ segir Ása en hljómsveitin hefur verið starfandi frá árinu 2001 og markað sér ákveðinn sess á Akranesi og nærsveitum.

„Í gegnum tíðina höfum við haldið tónleika víðsvegar um landið. Má þar helst nefna Hofið á Akureyri, Stóra sviðið og Nýja sviðið í Borgarleikhúsinu, Bíóhöllinni á Akranesi og Reykholtskirkju svo eitthvað sé nefnt. Árið 2015 spiluðum við fyrir fullum sal í Norðurljósasal Hörpu og ári seinna hlutum við titilinn bæjarlistamenn Akraness. Við höfum einnig verið dugleg að fara með tónlistina okkar út fyrir landsteinana, til Danmerkur, Þýskalands, Frakklands og Skotlands og fengið mjög góðar undirtektir. Í haust erum við á leið aftur til Skotlands með nýja sýningu til að kynna diskinn,“ sagði Ása Katrín að lokum.

Screen Shot 2017-03-16 at 9.20.45 AM