Írskir vetrardagar standa sem hæst á Akranesi

Írskir vetrardagar eru nú haldnir í annað sinn á Akranesi. Markmiðið með hátíðinni er að efla þekkingu og tengsl Akurnesinga við írska arfleifð sína sem og að kynna hana fyrir gestum. Írskir vetrardagar hófust í gær, fimmtudaginn 16. mars og þeim lýkur á sunnudaginn, 18. mars.

Í morgun, föstudag, fór írska tónlistarkonan Elaine Ní Cuana í heimsókn á leikskóla kaupstaðarins þar sem hún lék írsk lög og kynnti um leið írsk hljóðfæri, flautu, hörpu, trommu og sekkjapípu. Börnin og leikskólakennararnir voru áhugasamir um þessi framandi hljóðfæri og í lok heimsóknar var sýnt tónlistarmyndband við írska lagið Amhrán Na Farraige sem útleggst sem söngurinn við sjóinn. Myndbandið er unnið úr teiknimyndinni Song of the sea sem er jafnframt írsk.

Sýningin Keltnesk arfleifð á Vesturlandi opnar kl. 17 í dag föstudag. Sýningin er í Guðnýjarstofu á Byggðasafninu í Görðum og er hún bæði á íslensku og á ensku. Meðal efnistaka í sýningunni er umfjöllun um kelta og hverjir þeir voru, ástæður þess að þeir flúðu land og námu land á Íslandi, tengsl milli keltneskra tungumála og íslensku, keltnesk kristni, Donald Trump og fleira. Sjón er sögu ríkari.

Útgáfutónleikar Slitinna strengja verða haldnir bæði á föstudags-og laugardagskvöld en sveitin er Bæjarlistamaður Akraness 2016. Sveitin saman stendur af 19 fiðluleikurum og söngvurum ásamt þremur meðleikurum. Tónleikarnir fara fram í Tónbergi, sal Tónlistarskólans á Akranesi. Uppselt er á fyrri tónleikana.

Meðal annarra viðburða er ljósmyndasýning Kristjönu Halldórsdóttur. Sýningin ber heitið Gamli Skaginn og er til sýnis í Café Kaja að Kirkjubraut 54. Þá er leikritið Ronja Ræningjadóttir í sýningum í Bíóhöllinni á Akranesi en það er nemendafélag Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi sem sýnir. Þá eru jafnframt viðburðir á skemmtistöðum bæjarins um helgina.

Frekari upplýsingar má sjá www.facebook.com/irskirdagaraakranesi og á www.akranes.is

17310101_1175810639219661_4055487817807479145_o 17218414_1180054128795312_4794684749946692945_o 17311330_1180054065461985_2398415099910709596_o 17359377_1180053978795327_6094363840723992403_o