Skagamaðurinn Guðmundur Þórir er „afi sjóræningi“
sem býr í Kanada en starfar í Afríku
Guðmundur Þórir Sigurðsson er Skagamaður í húð og hár en hann hefur frá mörg að segja eftir margra ára búsetu í Kanada. Guðmundur, sem er fæddur árið 1970, hefur á undanförnum árum unnið sem framleiðslustjóri á rússnesku skipi sem gerir út við strendur Afríku og má segja að leiðin í vinnuna sé löng hjá gítarleikaranum knáa. Í ítarlegu og skemmtilegu viðtali við skagafrettir.is kemur ýmislegt fróðlegt fram – og þar er lýsingin á ferðalagi hans með bílstjóranum Babú ótrúlega skemmtileg.
„Ég ákvað árið 2004 að taka mér frí frá sjónum og fór í nám í búvísindum við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri (LBÍ). Þar dvöldum við í 2 ár og fluttum svo til Kanada. Við Jóhanna höfðum oft talað um að það gæti verið gaman að prófa að búa erlendis. Það var bæði forvitni og ævintýraþrá. Við fluttum því til Guelph í Kanada þar sem að LBÍ var í samstarfi við háskólann hér í Guelph,“ segir Guðmundur þegar hann var inntur eftir því hvers vegna hann flutti frá Akranesi á sínum tíma. Það var ekki allt eins og það átti að vera þegar fjölskyldan var búin að koma sér fyrir í Kanada.
„Það var smá vesen á skiptináminu sem ég hafði í huga, sem var blanda af búvísindum og viðskiptafræði. Þetta nám var ekki viðurkennt af LBÍ. Ég hefði því ekki getað útskrifast úr LBÍ árið eftir. Við ákváðum að halda okkar striki og fórum út á okkar eigin vegum, Ég kláraði námið mitt hérna í University of Guelph. Á næsta eina og hálfa ári eftir það lauk ég meistaranámi í alþjóðaviðskiptum frá Bifröst og hlaut á sama tíma Fellowship frá Rutgers University í New Jersey, USA.“
Guðmundur og Jóhannna Sæmundsdóttir kunna vel við sig með fjölskylduna í Kanada og það er af nógu að taka þegar hann lýsir daglega lífinu í Kanada, helstu kostum samfélagsins og bænum Guelph.
„Það eru margir kostir við að búa hérna; Samfélagið er mjög opið og mikið umburðarlyndi. Okkur fannst Kanada taka okkur með opnum örmum og höfum við öll komið okkur upp góðu lífi hér. Þetta er mjög alþjóðlegt samfélag og þar af leiðandi öðlast maður skilning á margskonar menningu og siðum.
„Okkur fannst Kanada taka okkur með opnum örmum“
Fólk í Kanada er með eindæmum kurteist og brandarinn um að Kanadamenn segji stanslaust „sorry“ er algjörlega á rökum reistur. Eitt af því sem kom okkur hvað mest á óvart var að ókunnugt fólk byrjar að tala saman í röðinni við búðarkassann og afgreiðslufólk brosir alltaf og spyr „good morning, how are you?” Okkur fannst þetta einstaklega mikil hnýsni í byrjun en er orðið okkur eðlilegt núna.
Veðrið er hér mjög gott. Eftir eftir all mörg ár á dekkinu á íslenskum togara með dofna fingur og bláar tær er ég nokkuð sáttur við „flip-flops“ sandala og sólgleraugu meirihluta ársins. Veturnir geta orðið mjög kaldir en eru sem betur fer stuttir, við erum til dæmis að njóta 10 stiga hita núna um miðjan nóvember.
Bærinn sem við fluttum til heitir Guelph og er í Ontario fylki, ca 1 klst. frá Toronto. Hér búa um 115 þúsund manns árið um kring en aðeins fleiri yfir vetrartímann þar sem háskólinn dregur til sín um þrjátíu þúsund nemendur á hverju ári. Guelph er afslappaður fjölskylduvænn og vinalegur háskólabær, hálfgerð „hippastemning.
„Guelph er afslappaður fjölskylduvænn og vinalegur háskólabær“
Hér eru allar íþróttir og aðrar tómstundir í boði. Hér eru íþróttafélög sem reka sína starfssemi sjálf, einnig býður bærinn upp á ódýrari kost í mörgum íþróttum. Almennur rekstrarkostnaður fyrir stóra fjölskyldu er töluvert lægri heldur en heima á Íslandi t.d. matur og húsaleiga. Hér eru góðir skólar og ganga okkar krakkar allir í French Immersion skóla þar sem mest öll kennslan fer fram á frönsku. Hér er frír skóli fram að háskóla og frítt heilbrigðiskerfi. Hér er mikið lagt upp úr sjálfboðavinnu, ungt fólk er hvatt til hjálpsemi og Teitur þarf til dæmis að klára 40 klst af sjálfboðavinnu til að útskrifast úr high school.
Þeir sem fylgjast með Guðmundi og Jóhönnu á fésbókinni hafa séð að íshokkí er áberandi í sögum þeirra frá Kanada.
„Já, Guelph er mikill íshokkíbær eins og við er að búast enda Kanadamenn yfir höfuð mjög sterkir í þessari íþrótt. Báðir synir okkar hafa æft hokkí. Friðrik er reyndar búinn að skipta yfir í fótbolta og æfir mark af kappi og þar koma Skagagenin sterk inn. Hann er kominn í keppnisliðið svo það stefnir í að nóg verði að gera í skutli og ferðalögum næsta sumar. Teitur er líka hættur að spila enda í krefjandi French Immersion High School en hann vinnur sem aðstoðarþjálfari í Hokkí Power Skating. Ísold fór aðra leiðir og æfir dans og hefur virkilega gaman af því.“
Tónlistin hefur fylgt Guðmundi í gegnum tíðina en hann var virkur sem gítar – og bassaleikari í ýmsum Skagahljómsveitum á árum áður – og hann sendi m.a. lag í undankeppni Söngvakeppni Evrópu á Íslandi og gaf út plötu.
„Það er alltaf korter í meik hjá mér,“ segir Guðmundur í léttum tón. Já, það er hægt að segja að ég sé virkur áhugamaður í tónlist. Ég tek reglulega upp tónlist og spila stundum hér eða í Toronto. Ég stefni á að gefa út aðra plötu, vonandi á næsta ári sem verður allt öðruvísi en sú síðasta.
„Ég stefni á að gefa út aðra plötu, vonandi á næsta ári“
Þessi verður mjög einföld og þung plata, líklega bara einn með gítar. Einhver lög af sjónum, bara stál og hnífur alla leið. Eurovision já, frábær keppni, ég sendi nú reyndar inn lag um árið en var borinn út af með slitinn togvír af köppunum í Pollapönk… I´ll be back.“
Eins og áður kemur fram starfar Guðmundur sem vinnslustjóri á rússneskum frystitogurum við vesturströnd Afríku. Ferðalagið er langt frá Kanada í vinnuna, skipin eru risastór og um 100 manns í áhöfninni.
„Þetta eru stór skip, 120 metra löng og 18 metra breið með áhöfn allt að 100 manns. Við veiðum mest makríl og hestamakríl en ýmislegt slæðist þó inn sem maður sér ekki daglega. Túrarnir sem ég fer í eru um 70 dagar og stundum yfir 100 dagar. Mér líkar þetta vel, þetta er krefjandi en skemmtilegt.
Mér líkar þetta vel, þetta er krefjandi en skemmtilegt
Ég myndi kannski ekki segja að þetta sé vesen, vissulega er ferðalagið langt, nokkur flug, akstur og sigling til að komast um borð en þetta venst. Ef einhver hefur gaman að því að sjá þetta ferðalag þá tók ég upp myndbandi við eitt lag sem ég gaf út á síðasta ári sem sýnir ferðalagið frá Kanada til Amsterdam, þaðan til Madrid og til Las Palmas. Svo til Afríku, gegnum Sahara með bíl og á utanborðs mótorbát um borð í togarann.
Guðmundur rifjaði upp eftirminnilegt ferðalag í gegnum Sahara eyðimörkina – þar sem hann keyrði í 7 tíma í sandi, sól og myrkri með áhugaverðum bílstjóra.
„Bílstjórinn heitir Babú. Mjög glaður og áhugasamur maður að tala um Sahara, landið Máritaníu, hann söng með öllum lögum í útvarpinu á milli þess sem hann var að blaðra í símann.
„Ég er góður bílstjóri og þetta er eðlilegt“. Hann hélt síðan áfram að keyra á 120-130 km. hraða á ljóslausum bílnum í myrkrinu í eyðimörkinni“
Ég var eiginlega orðinn nett stressaður þegar myrkrið var orðið algert og ljósinn virkuðu ekki alveg í smá umferð vöruflutningabíla á móti. Eitt sinn lentum við í holu og höggið var mikið. Ljósin duttu út, sem og útvarpið. En að hægja á sér var ekki á dagskrá hjá Babú. Ég bað hann um að hægja á sér þar sem ég væri eiginlega ekkert að drífa mig og það væri allt í lagi að vera aðeins of seinn. Svar hans við þessari bón minni var að taka í hendina á mér og lyfta henni upp eins og að fagna og hann sagði síðan. „Ég er góður bílstjóri og þetta er eðlilegt“. Hann hélt síðan áfram að keyra á 120-130 km. hraða á ljóslausum bílnum í myrkrinu í eyðirmörkinni. Hann hægði svo sannarlega ekki á sér í gegnum sandinn og myrkrið. Ég öskraði nokkrum sinnum á hann „Babú, Babú“ og lamdi hann duglega í lærið þegar ég var ekki sáttur en hann svaraði bara. „Þetta er eðlilegt ég er góður bílstjóri. („Normal, me very good driver“). Ferðalagið endaði með þeim hætti að ég þurfti að tala við konuna hans Babú í síma. Þar sagði ég henni að við værum komnir á áfangastað, heilir og Babú væri frábær bílstjóri. Babú fékk gott „tips“ blessaður og yfirmáta glaður að ég skildi vilja staðfesta hans hæfileika við konuna hans. Það var áhugavert hversu allir voru hjálplegir í þessu ferðalagi. Þetta er án alls efa mesta drusla sem ég hef verið í. Opel station, 7 manna, smíðaður fyrir 1985 og keyrður líklega langt í milljón kílómetra.
„Þetta er án alls efa mesta drusla sem ég hef verið í. Opel station, 7 manna, smíðaður fyrir 1985 og keyrður líklega langt í milljón kílómetra“
Skrjóðurinn hafði það alla leið með lafandi spegla og nagað mælaborð. Alla leiðina var Babú að spyrja mig hvort hann mætti ekki taka hina og þessa upp í á leiðinni. Hann var að hjálpa þeim og mér fannst þetta ekkert mál. Alls staðar vour bílar í mjög slæmu ásigkomulagi og minn maður með varahluti handa öllum klára undir sætum og á gólfi. Klár með faðmlag og bæn handa öllum sem hann hitti. Hann tók alla uppí og hluta ferðarinnar voru ég og Babú í bílnum ásamt einum frá Rússlandi, tvær löggur úr her Máritínu, og gamall bóndi á leið heim í hirðtjaldið. Við stoppuðum hjá bóndanum og skoðuðum úlfaldahjörðina sem var um 20 dýr. Bóndinn var mjög stoltur af þeim og fjölskyldu sinni sem bjó í tjaldi við veginn. Hann ræddi um ræktunina á sínum dýrum og sýndi okkur nýjustu afkvæmin. Þetta var ógleymanleg ferð.“
Guðmundur segir að það komi ávallt ýmsar aðstæður upp á skipinu sem þarf að bregðast við.
„Eftirminnilegt er andrúmslotið um borð þegar Rússar réðust inn í Úkraínu og ég var með bæði Rússa og Ukraínumenn um borð. Mikil spenna um borð og menn áhyggjufullir. Það þurfti að huga vel að því hverjir voru að vinna saman og fylgjast vel með að ekki syði upp úr. Menn voru að koma inn á skrifstofu, sumir örvinglaðir og vildu fara heim því þeir væru með fjölskyldur á átakasvæðum og aðrir að biðja um að róa þrotlaust til að forðast að vera kallaðir í herinn. Menn skiptust í margar og flóknar fylkingar í þessum aðstæðum. Það var mikill skóli að stýra mönnum undir þessum aðstæðum og vera í fullri vinnslu á sama tíma, margir fundir og vökur. En allt endaði vel og ekki sauð uppúr.“
„Mikil spenna um borð og menn áhyggjufullir“
Guðmundur segir að fjölskyldan sé ekki að huga að heimferð en það sé aldrei að vita hvað framtíðin beri í skauti sér.
„Þegar við fluttum hingað var planið að dvelja í eitt ár en það hefur aðeins teygst á því. Jóhanna kláraði mannfræðigráðu frá háskólanum hér og er stórnarformaður í listdansskautafélagsins í Guelph. Krakkarnir þekkja ekkert annað en Kanada eftir áratug hérna. Það má því segja að Kanada sé málið hjá okkur en það er aldrei að vita hvað gerist í framtíðinni. Það vissulega margt sem ég sakna frá Akranesi og þar var gott að búa.
Akranes er fyrir mér auðvitað alltaf „Home Sweet Home“ og höfuðborg íslenska heimsveldisins. Ég er alinn upp undir fjalli, með sjóinn í bakgarðinum þannig að vera umkringdur skógi og langt frá sjó er stundum þrúgandi. Ég sakna staðarins og menningarinnar sem og að geta ekki tekið „stöðuna“ með öðrum sjómönnum og félögum þegar ég er í fríi, kannski aðeins einangraður. Skype hjálpar til en hér er ég umkringdur fólki sem skilur ekki „stemninguna“ ef svo má segja. Auðvitað sakna ég fólksins okkar líka mikið og á þá sérstaklega elsta sonarins.
„Akranes er fyrir mér auðvitað alltaf „Home Sweet Home“ og höfuðborg íslenska heimsveldisins“
Ég er orðinn afi en hann og unnusta hans eiga tvö börn. Það er auðvitað „cool“ að vera afi sjóræningi yfir Skype en við myndum mjög gjarnan vilja hafa þau nær. Svo væri nú ekki verra að komast í svið til mömmu öðru hvoru. Það væri líka gaman að dusta rykið af markmannshönskunum og mæta galvaskur á árgangsmót ÍA með mínum mönnum í árgangi 1970. Og við myndum að sjálfsögðu vinnum þessa keppni. Áfram ÍA.“
Ættfræðitréð:
Guðmundur Þórir Sigurðsson, maki Jóhanna Steinunn Sæmundsdóttir (dóttir Skagamannsins Sæmundar Víglundssonar), Vilhjálmur Sveinn Guðmundsson (25 ára), Teitur Logi Guðmundsson (14 ára), Friðrik Úlfur Guðmundsson (11 ára), Ísold Guðmundsdóttir (7 ára)
Faðir: Sigurður Villi Guðmundsson, Yfirvélstjóri á Víkingi AK100. Móðir: Dagbjört Friðriksdóttir, Sjúkraliði, Sjúkrahús Akraness. Systur: Pálína Sigurðardóttir og Kristbjörg Sigurðardóttir.