Arnór á förum frá ÍA – samdi við Norrköping í Svíþjóð

Arnór Sigurðsson, 17 ára gamall knattspyrnumaður úr ÍA, hefur samið við sænska úrvalsdeildarliðið  IFK Norrköping. ÍA og  IFK Norrköping hafa náð samningum um félagaskiptin og skrifaði Arnór undir samning sem gildir til fjögurra ára.

Arnór lék með ÍA í Pepsideildinni í fyrsta sinn þegar hann var rétt rúmlega 16 ára gamall gegn ÍBV í lokaleiknum árið 2015 í Pepsi-deildinni. Hann hefur alls leikið 25 leiki með mfl. ÍA þar af 7 leiki í Pepsideildinni.

Hér er fésbókarsíða sem er tileinkuð Arnóri Sigurðssyni – um að gera að henda einu læki á þessa síðu: 

Arnór fór til  IFK Norrköping til reynslu s.l. haust og hann fór í æfingabúðir með félaginu til Portúgals í byrjun þessa árs.

Gunnlaugur Jónsson þjálfari ÍA er ánægður fyrir hönd Arnórs í viðtali á heimasíðu ÍA:

„Við erum gríðarlega ánægðir fyrir Arnórs hönd með þetta stóra skref á hans ferli. Arnór hefur unnið markvisst í sínum málum og á þetta svo sannarlega skilið. Það hefur verið gríðarlega gaman að sjá hann eflast síðan hann fór að æfa reglulega með meistaraflokk og sérstaklega nú í vetur þar sem hann hefur tekið miklum framförum. Það verður spennandi að fylgjast með framgöngu hans í Svíþjóð” segir Gunnlaugur Jónsson þjálfari ÍA.

 

Jón Guðni Fjóluson frá Íslandi leikur með Norrköping. Margir íslenskir leikmenn hafa verið í herbúðum liðsins og þar ber fyrst að nefna Skagamanninn Stefán Þórðarson. Hann er hetja hjá stuðningsmönnum liðsins og númerið 18 sem hann var ávallt með á bakinu á keppnistreyjunni verður ekki notað aftur af leikmanni Norrköping.

Keppnistreyja Norrköping nr. 18 hefur verið hengd upp í rjáfur á heimavelli félagsins Stefáni til heiðurs.

Arnór kemur af miklum knattspyrnuættum. Móðir hans er Margrét Ákadóttir, þaulreynd landsliðskona, og faðir hans er Sigurður Sigursteinsson, sem var m.a. í liði ÍA þegar það varð síðasta Íslandsmeistari í efstu deild haustið 2001.

Arnór Sigurðsson.
Arnór Sigurðsson.