Það var í mörg horn að líta hjá Rúnu Björgu Sigurðardóttur þegar skagafrettir.is litu við í æfingstöðinni Metabolic Akraness. Rúna Björg var í óðaönn að útbúa ferska og girnilega booztdrykki fyrir viðskiptavini sína sem voru á æfingu í salnum. Tilefnið var að eitt ár var liðið frá því að Rúna Björg opnaði Metabolic á Akranesi við Ægisbrautina.
Samhliða því að ræða við blaðamann í booztgerðinni var Rúna með annað augað á símanum þar sem að karlalið Aftureldingar var að keppa í Olís deildinni í handbolta.
„Þetta eru strákarnir sem ég hef þjálfað í þrjú ár og ég reyni að fylgjast með leikjunum eins og hægt er,“ segir Rúna Björg en hún hefur séð um styrktarþjálfun hjá handknattleiksdeild Aftureldingar s.l. þrjú ár.
„Ég kynntist Metabolic þegar ég var í einkaþjálfunarnáminu við Keili í Reykjanesbæ. Helgi Jónas Guðfinnsson var einn af kennurunum í því námi og hann er upphafsmaðurinn að Metabolic. Helgi var búinn að keyra þetta áfram í Grindavík og Reykjanesbæ með góðum árangri. Hann ýtti mér af stað og hvatti mig áfram og sumarið 2012 byrjaði ég með hóptíma á Jaðarsbökkum. Ég henti mér í djúpu laugina og byrjaði bara með látum. Fjöldi þeirra sem voru hjá mér fór úr 0 og upp í rúmlega 60 manns á nokkrum vikum. Ég man að ég var alltaf að keyra til Reykjavíkur til þess að kaupa fleiri ketilbjöllur og eitthvað slíkt þar sem að fjöldinn var það mikill að æfa.“
Það eru eflaust margir sem hafa ekki hugmynd um hvað Metabolic er en Rúna Björg var ekki lengi að hugsa sig um þegar hún var beðin um að útskýra út á hvað þetta gengur. Hún hugsaði reyndar málið á meðan hún setti kraftmikinn blandara í gang til þess að klára afmælisboostdæmið.
Metabolic er í raun það besta sem hægt er að fá úr hóptímakennslu og einkaþjálfun
„Metabolic er í raun það besta sem hægt er að fá úr hóptímakennslu og einkaþjálfun. Við erum með hópatíma en aðlögum þá að hverjum og einum. Það er margt í boði, þetta er stöðvaþjálfun og það getur hver sem er komið inn og byrjað. Hvort sem það er afreksíþróttamaður eða byrjandi. Að mínu mati eru meiri þjálffræðileg vísindi á bak við Metabolic en margt annað sem er í boði. Það liggja miklar pælingar á bak við allar æfingar. Við vinnum markvisst með öll orkukerfin, pössum upp á að halda í liðleikann og undirbúum okkur vel fyrir tímana með markvissri upphitun. Metabolic gengur í fyrsta lagi út á að bæta frammistöð en meiðslaforvarnir (bætt líkamsstaða) er mikilvægur hlekkur í því samhengi.“
Rúna Björg leynir því ekkert að hún hafi verið hnút í maganum áður en Metabolic Akraness var opnað fyrir ári síðan.
„Ég var stressuð, með fimm mánaða gamalt barn, og við lögðum allt í að gera þessa stöð eins góða og hægt er. Mér leið bara þannig í fæðingarorlofinu að ég þyrfti að gera þetta, mér fannst ég ekki geta farið til baka í það sem ég var að gera áður á Jaðarsbakka. Ég og maðurinn minn, Eyþór, tókum rúntinn hérna um bæinn og skoðuðum allt sem var í boði. Við vorum föst í því að leita að ákveðinni stærð af rými og þegar okkur bauðst þetta þá fannst okkur þetta vera of lítið. Ég sagði bara „fjandinn hafi það“ við verðum að byrja einhversstaðar. Við keyptum þetta hráa iðnaðarhúsnæði og hófumst handa við að gera þetta eins vel og hægt er. Markmiðið frá upphafi var að fólki liði vel hérna, og þegar það kemur inn þá á það að upplifa að hér sé eitthvað sérstakt. Nánast allir sem hafa komið hingað í fyrsta sinn segja VÁ þegar þeir koma inn í salinn. Það er svolítið hrátt umhverfið hérna á Ægissbrautinni en þegar inn er komið þá er stemningin allt önnur.“
Ég sagði bara „fjandinn hafi það“ við verðum að byrja einhversstaðar. Við keyptum þetta hráa iðnaðarhúsnæði og hófumst handa við að gera þetta eins vel og hægt er.
Eins og áður segir er rúmt ár frá því að Metabolic Akraness var opnað og hefur reksturinn gengið vonum framar. „Við opnuðum í raun á versta tíma, um páskana í fyrra, og við áttum einnig von á því að sumarið yrði frekar rólegt hjá okkur. Það reyndist ekki vera rétt og það var mikið um að vera í sumar. Við opnuðum stóru hurðina við öll tækifæri, snemma að morgni og langt fram á kvöld, og fólki fannst eins og það væri að æfa úti.“
Rúna Björg var sjálf í fótbolta á yngri árum en varð að hætta snemma vegna meiðsla. „Ég var alltaf með verki og meidd. Eftir á að hyggja hefði ég átt að gera hlutina öðruvísi en það er auðvelt að vera vitur eftir á. Ég fór því á fullt í almennt hreysti, fór út að hlaupa og lyfta. Mér fannst þetta mjög gaman og hafði ég mikinn áhuga á þessu. Ég fór alla leið í fitness en keppti aldrei í því. Á þessum tíma fór ég aðeins of geist í æfingarnar og ofþjálfun gerði vart við sig. Ég hlustaði ekki á líkamann og ég var lengi að ná mér út úr þessum vítahring. Í dag er ég enn að glíma við afleiðingar ofþjálfunarinnar. Ég veit hvað ég gerði rangt og ég miðla þeirri reynslu í dag til þeirra sem ég er að þjálfa,“ segir Rúna Björg og rífur upp símann og tékkar á stöðunni hjá Aftureldingu. „Þeir eru að koma til baka eftir slæma byrjun, styrktarþjálfunin er að skila sér,“ segir Rúna Björg og hendir nokkrum ávöxtum í blandaraskálina.
Rúna Björg er menntuð sem ÍAK einka – og styrktarþjálfari.
Í styrktarþjálfaranáminu eru nemendur sérhæfðir í styrktar- og ástandsþjálfun íþróttamanna á afreksstigi. Kennari í styrktarþjálfaranáminu vísaði forsvarsmönnum Aftureldingar á Rúnu.
Styrktarþjálfun er mjög mikils metinn hjá handboltadeild Aftureldingar og að mínu mati ættu fleiri íþróttagreinar s.s. knattspyrnan að sinna þessum hluta þjálfunarinnar meira
„Þessi kennari hafði mikla trú á mér og benti félaginu á mig. Ég fann strax að það ríkti 100% traust til mín og ég var í raun með liðið allt fyrsta sumarið mitt í þessu starfi, þeir komu varla við handbolta á þessum tíma. Þeir eru á æfingum hjá mér þrisvar sinnum í viku allt árið um kring. Þeir taka fjögurra vikna sumarfrí en hina ellefu mánuðina eru þeir hjá mér. Það er ótrúlegur munur á þeim frá því þeir komu í fyrstu tímana. Þeir eru mun sterkari og þola álagið sem fylgir því að leika um titlana í efstu deild mun betur en áður.
Það ríkir skemmtileg stemning í kringum Aftureldingu og mér finnst gríðarlega gaman að fá tækifæri að taka þátt í þessu. Eini ókosturinn er að ég kemst á afar fáa leiki en ég reyni að sjá stórleikina í bikarúrslitum og úrslitakeppninni ef ég get. Styrktarþjálfun er mjög mikils metinn hjá handboltadeild Aftureldingar og að mínu mati ættu fleiri íþróttagreinar s.s. knattspyrnan að sinna þessum hluta þjálfunarinnar meira.“
Þegar Skagafréttir voru í heimsókn í Metabolic Akraness voru konur í miklum meirihluta á æfingunni.
Í raun var bara einn karl en það var ekki að sjá að honum leiddist. Rúna Björg segir að körlunum muni hægt og rólega fjölga í stöðinni.
„Ég er þolinmóð og veit að það verður vakning hjá strákunum hvað þetta varðar fyrr en síðar. Konurnar eru búnar að fatta þetta kerfi og handboltastrákarnir í Aftureldingu eru að fíla þetta í botn. Ef ég ætti að draga það saman hvað gerir Metabolic eftirsóknarvert þá er það fjölbreytnin, sveigjanleikinn og skemmtanagildið í æfingakerfinu sem heillar flesta.
Æfingakerfið er gott, andrúmsloftið er afslappað og þú þarft ekki að setja þig í neinar stellingar áður en þú mætir hérna. Það er enginn að pæla í því hvað aðrir eru að gera. Sumum finnst mjög erfitt að taka skrefið inn á líkamsræktarstöð og finnst jafnvel að þau séu að trufla okkur sem erum að kenna. Það er hinsvegar okkar starf að leiðbeina og okkur finnst það bara sjálfsagt. Hér eru allir bara uppteknir af því sem þeir eru að gera, æfa með þá ákefð og þyngdir sem hentar þeim, út frá öllum orkukerfum. Fjölbreytni er í fyrirrúmi hjá okkur. Fólk sem hefur verið hérna í hálft ár finnst varla að það hafi gert sömu æfinguna tvisvar og þannig á það líka að vera,“ segir Rúna Björg Sigurðardóttir.
Hvað er Metabolic?
Metabolic er árangursrík, fjölbreytt og skemmtileg hópþjálfun fyrir alla þá sem vilja komast í frábært alhliða form í góðum félagsskap og hentar sérstaklega þeim sem hafa lítinn tíma til að æfa en vilja ná árangri.
Iðkendur vinna með þyngdir við sitt hæfi og hentar Metabolic því bæði byrjendum sem og þeim sem eru í topp formi. Rík áhersla er lögð á öryggi í þjálfun og persónulega þjónustu.
Allir Metabolicþjálfarar eru faglærðir og leggja metnað í að fræða iðkendur og styðja í átt að markmiðum sínum.Þjálfarar eiga bara góða daga og frábæra daga og sjá til þess að iðkendur fá góða upplifun af þjálfuninni.
Metabolic er íslenskt æfingakerfi hannað af Helga Jónasi Guðfinnssyni