Skagakonan Rósa Guðrún á stóran þátt í vinsælasta lagi landsins

Vígin Falla hefur á undanförnum vikum verið vinsælasta lagið á Rás 2. Skagakonan Rósa Guðrún Sveinsdóttir leikur stórt hlutverk í hljómsveitinni Jónas Sig og Ritvélar framtíðarinnar. Rósa Guðrún er með mörg járn í eldinum sem tónlistarmaður og bjart framundan á því sviði. Skagafréttir ræddi við Rósu Guðrúnu um tónlistarferilinn og margt annað.

Rósa Guðrún er 36 ára og kemur úr stórri fjölskyldu. Hún á alls átta systkini, alsystkini, hálfsystkini og stjúpsystkini.

„Þau eru út um allt, sum á Skaganum, önnur í Reykjavík og erlendis einnig. Faðir Rósu er Sveinn Kristinsson fyrrum kennari og bæjarstjórnarmaður á Akranesi. Núverandi formaður Rauða krossins. Borghildur Jósúadóttir er stjúpa Rósu. Móðir Rósu er Gunnvör Björnsdóttir sem kenndi lengi íþróttir við Brekkubæjarskóla en hún er látin.  Kærasti Rósu heitir Jakob Guðmundur Rúnarsson úr Lundarreykjadal.

„Fjölskyldan er hópur af góðu fólki og það er músík í flestum þó þau hafi farið mislangt í þeim efnum. Ég er með mestu tengslin við Strandirnar þar sem ég dvaldi flest sumur sem barn. Þar fékk ég frábæra æsku hjá afa og ömmu.“

Rósa gaf út plötu með eigin lögum og útsetningum árið 2014. „Ég gerði þá plötu í samvinnu við pabba minn, sem er ansi lunkinn í ljóðagerð, þótt hann vilji helst ekki tala mikið um það. Textar hans eru flestir um náttúruna og lífið á Ströndunum.

 

Rósa segir að hún hafi ekki tekið tónlistarnámið mjög föstum tökum í upphafi.

„Ég byrjaði átta ára að læra á píanó í Tónlistarskólanum á Akranesi.  Ég entist í hálfan vetur. Þegar ég var 11 ára fór ég að læra á þverflautu hjá Andrési Helgasyni og 18 ára fór ég að læra á saxófóninn. Um tvítugt fór ég að leika á baritónsaxófón, og það var tilviljun sem varð til þess að ég fór svona ung að leika á það hljóðfæri. Þegar ég var í skólalúðrasveitinni þá vantaði bassahljóðfæri. Í einhverri kompu fannst gamall „jálkur“ og ég fékk hann. Frá þeim tíma hef ég varla spilað á aðrar gerðir af saxafónum – mér fannst hann vera aðeins of töff. Ég hélt síðan áfram að bæta hljóðfærum í námið og á síðasta árinu mínu í FVA var ég í fjórföldu tónlistarnámi. Á þeim tíma var ég í námi á þverflautu, saxófón, í söng og á píanó.“

Eftir útskriftina úr Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi fór Rósa Guðrún í þverflautunám í tónlistarnám í Tónlistaskóla Reykjavíkur.

 

„Ég stefndi á að verða kennari en eftir einn vetur snérist mér hugur. Ég fann mig ekki í þessum klassíska heimi. Háskóli Íslands og líffræðin varð fyrir valinu og ég útskrifaðist þaðan árið 2007.“

Með náminu starfaði Rósa Guðrún í Tónastöðin í Skipholti, sem er í eigu Skagahjónanna Andrésar Helgasonar og Hrannar Harðardóttur. „Ég vann þar í áratug og Tónastöðin er í raun félagsmiðstöð fyrir tónlistarfólk. Þar kynntist ég mörgu fólki úr ýmsum áttum. Á þessum tíma lét ég gamlan draum rætast og hélt áfram í söngnáminu, fór í tónlistarskóla FÍH. Ég lauk því námi ásamt kennararprófi árið 2012. Ég mun útskrifast í annað sinn úr þessum skóla þann 6. apríl með burtfararpróf í saxafónleik og verð ég fyrsta konan sem útskrifast „á saxófón“. Og ég verð líka fyrsti nemandinn sem útskrifast í annað sinn frá FÍH. Það er mikið grínast í mér á hvaða hljóðfæri ég ætli að taka fyrir næst. Ég held ég láti þetta gott heita í bili allavega,“ segir Rósa Guðrún en líf hennar snýst um tónlist alla daga. „Ég kenni á þverflautu og saxófón hjá skólahljómsveit Austurbæjar. Ég spila síðan að jafnaði á nokkrum tónleikum á viku með hinum ýmsum listamönnum.“

img.2

Ég mun útskrifast í annað sinn úr þessum skóla þann 6. apríl með burtfararpróf í saxafónleik og verð ég fyrsta konan sem útskrifast „á saxófón“. Og ég verð líka fyrsti nemandinn sem útskrifast í annað sinn frá FÍH.

Rósa Guðrún viðurkennir að hún væri ekki á þessum stað í lífinu ef hún hefði ekki starfað á Tónastöðinni. „Í gegnum það starf og FÍH hef ég kynnst flestum þeim tónlistarmönnum sem ég vinn með í dag. Ég hef stundum hugsað um það hvort ég væri að starfa í vísindum í stað tónlistarinnar ef ég hefði ekki farið þessa leið. En hvernig sem þetta hefði farið þá veit maður aldrei hvað hefði gerst en tónlistin hefði alltaf skipað stóran þátt í mínu lífi.“  

Eins og áður segir er Rósa Guðrún í einni vinsælustu hljómsveit landsins. Hvernig kom það til?

„Ég kynntist Kristjönu Stefánsdóttur í FÍH og hún var að vinna mikið með Jónasi Sig við gerð plötunnar Allt er eitthvað árið 2010. Á því ári byrjaði ég að spila með Ritvélabandinu og verið þar allar götur síðan. Það er alveg frábær hópur og höfum við verið dugleg að spila og heppin að það er nánast undartekningarlaust fyrir fullu húsi.

Í tónlistinni gegna blásara línurnar jafn miklu hlutverki og hin „hefðbundnu“ rokk hljóðfærin og er mjög gaman að vera blásari í svoleiðis bandi. Jónas er á fullu skriði núna að vinna í nýju efni svo það er vonandi ekki alltof langt í næstu plötu. Í gegnum Ritvélarnar hef ég kynnst fólki eins og Arnari Gísla. Hann er meðlimur Mugison hópsins með mér og eiginmaður Láru Rúnars sem ég spila líka með. Og þegar svona mörg góð tengsl byrja að myndast þá koma í fangið á manni allskyns tækifæri og boltinn byrjar að rúlla.

img3

Í náminu mínu hef ég líka öðlast mun meira sjálfstraust sem spilari og hef verið að taka meiri áhættur og reyni að segja já við sem flestu sem mér þykir áhugavert, þó að það sé kannski stundum stórt skref útúr þægindarammanum.

Ég hefði til dæmis aldrei ímyndað mér fyrir einhverjum árum að í dag yrði ég meðlimur að verkefni með Tómasi R. Einarssyni, listamanni sem ég leit mikið upp til og geri enn. Mér finnst gaman að hafa mikið að gera og vera í ólíkum verkefnum, þó það geti stundum verið flókið að halda of mörgum boltum á lofti með kennslu og námi,“ segir Rósa Guðrún en næstu mánuðir eru mikið bókaðir í tónleikahaldi og ferðalögum.

„Mugisonflokkurinn fer og heimsækir landsbyggðina í maí og í sumar. Jónas og Ritvélarnar eru með landbyggðatúr í kortunum og ýmislegt fleira. Ég er að vinna í minni annari sólóplötu, en er ekki komin svo langt að geta sagt hvenær hún kemur út. Ég hef þurft að ýta mínum eigin verkefnum aðeins til hliðar þennan veturinn til að einbeita mér að náminu í skólanum. Núna er ég loksins að sjá fyrir endann á því. Það eru margar hugmyndir að krauma í kollinum á mér og er ég með langan óskalista af fólki sem mig langar að vinna með þ.a. ég er ansi spennt fyrir komandi tímum,“ sagði Rósa Guðrún.