Birgir Leifur Hafþórsson atvinnukylfingur og sjöfaldur Íslandsmeistari í golfi hefur verið ráðinn íþróttastjóri hjá Golfklúbbnum Leyni á Akranesi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Leynismönnum.
Birgir Leifur mun hafa yfirumsjón með allri þjálfun hjá Golfklúbbnum Leyni. Birgir Leifur mun vinna sem íþróttastjóri samhliða atvinnumennsku í golfi á Áskorendamótaröðinni (European Challenge Tour) þar sem hann er með keppnisrétt.
Frá vinstri: Guðmundur Sigvaldason framkvæmdastjóri Leynis,
Birgir Leifur Hafþórsson íþróttastjóri Leynis og Þórður Emil Ólafsson formaður Leynis. Mynd/Leynir.
Birgir Leifur starfaði nú síðast hjá GKG og mun samhliða störfum sínum fyrir Golfklúbbinn Leyni áfram spila og keppa undir merkjum GKG. Birgir Leifur er menntaður PGA golfkennari frá PGA golfkennaraskólanum á Íslandi en hann lauk golfkennaranámi árið 2012.
„Ég hlakka mikið til að fá að taka þátt í að móta
og byggja upp íþróttastarfið í mínum gamla heimaklúbb“
Birgi Leif þarf vart að kynna en hann er alinn upp á Akranesi og spilaði undir merkjum Golfklúbbsins Leynis allt til ársins 1997 er hann gekk til liðs við GKG m.a. vegna íþróttastefnu þess klúbbs á þeim tíma. Undanfarin ár hefur Birgir Leifur tekið virkan þátt í uppbyggingu á öflugu íþróttastarfi GKG og öðlast dýrmæta reynslu í hvernig hægt er að byggja upp gott íþróttastarf.
Með ráðningu á Birgi Leif er ætlun stjórnenda Golfklúbbsins Leynis að byggja upp öflugt íþróttastarf til framtíðar. Klúbburinn hefur verið þekktur fyrir að hafa alið upp margan góðan kylfinginn og má þar helst nefna Valdísi Þóru Jónsdóttur atvinnukylfing og margfaldan Íslandsmeistara í golfi.
Mikil ánægja er hjá stjórn klúbbsins að fá Birgi Leif á ný til liðs við Leyni, það að fá hann inn framtíðaráætlanir GL lýsir vel þeim metnaði sem stjórn GL hefur til uppbyggingar á íþróttastarfi klúbbsins. Birgir Leifur er og hefur verið fremsti kylfingur Íslands síðastliðin 20 ár, með reynslu hans og þekkingu í farteskinu lítur stjórn GL björtum augum á framtíðina.
„Ég hlakka mikið til að fá að taka þátt í að móta og byggja upp íþróttastarfið í mínum gamla heimaklúbb GL samhliða því að vera í atvinnumennskunni. Á Akranesi er mikil íþróttahefð og hefur bæjarfélagið og stjórn GL mikinn metnað að móta aðstæður sem eru til fyrirmyndar og munu auðvelda að gera gott starf enn betra,“ segir Birgir Leifur Hafþórsson.