Stórt ár framundan hjá Hallberu Guðnýju með íslenska landsliðinu

„Ég man alltaf eftir fyrstu fótboltaæfingunni minni á parketinu á Jaðarsbökkum. Það er sterk minning en ætli sterkustu minningarnar séu ekki hvað það var gaman að mæta á völlinn þegar Skagaliðið vann allt. Þar fékk maður ávaxtakaramellur í glasi og rúllaði sér niður bakkana. Seinna meir fór maður svo að horfa aðeins á leikina,“ segir Skagakonan Hallbera Guðný Gíslason landsliðsmaður í knattspyrnu við skagafrettir.is.

Framundan er stórt ár hjá Hallberu sem verður í lykilhlutverki með landsliðinu í lokakeppni Evrópumeistaramótsins í Hollandi – og þar að auki útskrifast hún úr Háskólanum á Akureyri samhliða atvinnumennsku með stórliði Djurgården

„Ég valdi fótboltann þar sem að áhuginn fyrir fótbolta var mikill á mínu heimili. Bræður mínir, Þorsteinn og Jóhannes, voru báðir í fótbolta. Það kom líklegast aldrei neitt annað til greina en að byrja að æfa. Ég prófaði síðan örugglega flest allt sem var í boði á Akranesi, fimleika, sund, frjálsar o.fl en fótboltinn átti alltaf best við mig,“ segir Hallbera Guðný um upphafsárin sín í fótboltanum á Akranesi,.

„Ég var í fjögur ár í Brekkubæjarskóla en flutti sig síðan í Grundaskóla þegar fjölskyldan flutti upp í „hverfi“. „Í kom inn í mikinn fótboltaárgang, árgerð 1986. Það fóru ansi margar frímínútur í leiki þar sem stelpurnar kepptu gegn strákunum, á malbiksvellinum. Strákarnir voru einnig duglegir að selja og kaupa leikmenn en oftast vorum við stelpurnar bara á „free transfer“ listanum.“

Upphafsdagurinn í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi var erfiður að sögn Hallberu en hún stundaði einnig nám í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík.

„Ég hef síðan sjaldan verið jafn stressuð og fyrir fyrsta daginn í FVA enda ekkert grín að vera busi! Ég lifði daginn af sem betur fer af og átti frábær fjögur ár í þeim skóla. Tók reyndar síðustu önnina í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík þar sem ég ætlaði að læra að sauma og prjóna. Það gekk svona upp og ofan,“ segir Hallbera Guðný en hún lék með ÍA allt fram til ársins 2005.

Þegar þú fórst frá ÍA í Val á sínum tíma var það erfið en nauðsynleg ákvörðun – óumflýjanlegt fyrir efnilegar knattspyrnukonur á Akranesi?

Keppnisskapið kemur frá mömmu og freknurnar líka

„Í mínu tilviki var það óumflýjanlegt að skipta úr ÍA í Val á þessum tíma. Það stefndi allt í að við myndum ekki ná í lið hjá ÍA eftir að liðið féll úr efstu deild haustið 2005. Ég skipti því yfir í Val. Það hentaði mér vel, og tímasetningin var góð, þar sem ég þurfti á meiri áskorun að halda ef ég ætlaði að bæta mig. Fyrsta árið í Val var bæði erfitt og lærdómsríkt. Þaar var ég allt í einu orðin huti af einu besta kvennaliði Íslands þar sem við unnum íslandsmeistaratitilinn fimm ár í röð.“

Hallbera fagnar hér Íslandsmeistaratitlinum með Breiðabliki ásamt Gísla föður sínum.
Hallbera fagnar hér Íslandsmeistaratitlinum með Breiðabliki ásamt Gísla föður sínum.

Þú hefur unnið marga titla á ferlinum hér á landi – hvaða titill stendur upp úr?

„Ég myndi segja að Íslandsmeistaratitillinn árið 2010 standi uppúr fyrir mig persónulega. Við unnum alla 5 titlana sem í boði voru og ég var valin besti leikmaður Vals það árið. Hópurinn var líka einn sá allra skemmtilegasti sem ég hef spilaði með. Þetta sumar var veisla frá upphafi til enda. Titillinn sem við í Breiðablik unnum 2015 var líka mjög sætur enda var orðið langt síðan ég hafði orðið Íslandsmeistari og á sama tíma lauk einnig langri bið í Kópavoginum eftir stóra titlinum.“

Hallbera Guðný hefur verið lykilmaður í íslenska landsliðinu á undanförnum árum. Hún segist lítið muna eftir fyrsta A-landsleiknu – þar sem hún var stressuð.

„Fyrsti A-landsleikurinn minn var á Algarve mótinu í Portúgal 2008. Ég man eiginlega ekkert eftir leiknum ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Ég man bara að ég var „drullustressuð“. Í dag er ég með meiri reynslu og stressið er aðeins minna sem betur fer.“
Landsliðið hefur náð frábærum árangri og stórmót framundan í sumar – er eitthvað hægt að lýsa því hvernig það er að fá tækifæri á stórmóti með Íslandi?

Ég veit hversu sárt það er að missa af tækifærinu eftir að ég handleggsbrotnaði illa stuttu fyrir fyrstu lokakeppnina sem landsliðið komst á. Það verður því allt sett í sölurnar til að fá að standa inni á vellinum í Hollandi 18. júlí og upplifa þessa tilfinningu aftur.

„Nei í rauninni er það ólýsanleg tilfinning að standa inni á vellinum og hlusta á þjóðsönginn vitandi það að maður sé að spila í lokakeppni á stórmóti. Ég er þakklát fyrir að hafa upplifað þetta að minnsta kosti einu sinni. Ég veit hversu sárt það er að missa af tækifærinu eftir að ég handleggsbrotnaði illa stuttu fyrir fyrstu lokakeppnina sem landsliðið komst á. Það verður því allt sett í sölurnar til að fá að standa inni á vellinum í Hollandi 18. júlí og upplifa þessa tilfinningu aftur.“

Hallbera Guðný var glæsileg í hlutverki Fjallkonunnar á 17. júní árið 2016.

Hallbera Guðný lét prinsessudraumin rætast þegar hún var í hlutverki Fjallkonunnar á 17. júní í fyrra.

„Þetta hlutverk var ekki beint á óskalistanum mínum en kannski var þetta lúmskur prinsessudraumur sem rættist. Ég var mjög stolt að vera valin í þetta flotta hlutverk. Ég fór í ljóðalesturs-æfingabúðir til Steinunnar móðursystur minnar. Ég reyndi að undirbúa mig eins vel og ég gat. Ætli ég hafi svo ekki verið í stress „blackouti“ þegar ég labbaði í gegnum torgið og uppá sviðið og komst einhvernvegin í gegnum ljóðið án þess að ruglast. Allt önnur tilfinning en að klæðast hinum bláa búningnum en þetta var rosalega gaman eftirá og verður skemmtileg minning í framtíðinni.“

Hallbera Guðný leikur í dag sem atvinnuknattspyrnumaður hjá stórliðinu Djurgaarden Svíþjóð en hún hafði leikið sem atvinnumaður áður í Svíþjóð.

„Ég var í tvö ár í Svíþjóð hjá Piteå og fór síðan í hálft ár til Ítalíu og lék með Torres á eyjunni Sardínu. Það er frábært að fá borguð laun fyrir það að æfa fótbolta og gera það sem manni finnst skemmtilegast. Þetta líf er ekkert alltaf dans á rósum. Það koma tímabil þar sem maður ferðast mikið og verður dálítið þreyttur og saknar Íslands. Síðan er þetta auðvitað töluvert meira hark í kvennaboltanum en karlaboltanum. Hver veit nema það breytist eitthvað á næstu árum. Kannski ekki margt sem hefur komið mér neitt svakalega á óvart varðandi atvinnumennskuna og umgjörðin hjá þeim liðum sem ég hef spilað með í Svíþjóð hefur verið til fyrirmyndar. Ítalía var síðan sér kafli útaf fyrir sig en mikil upplifun.“

Hallbera Guðný er í fjarnámi frá Háskólanum á Akureyri að læra viðskiptafræði og ef allt gengur eftir mun hún ljúka því námi í vor.

„Eftir þá törn þá ætla ég bara að njóta þess að spila fótbolta á meðan ég hef gaman af því og getu til. Hvað framtíðina varðar er annað óráðið og það kemur í ljós þegar ég verð fullorðin.“

„Við í fjölskyldunni erum frekar ólíkar týpur. Ætli ég sé ekki lík pabba, örvhent, örvfætt, fjörkálfur með græn augu og alvarlegri hlið líka. Keppnisskapið kemur frá mömmu og freknurnar líka. Akranes er auðvitað besti bærinn á Íslandi og margt sem maður saknar þaðan. Ætli ég sakni samt ekki mest brúnu kökunnar með hvíta kreminu úr Harðarbakarí,“ sagði Hallbera Guðný Gísladóttir við skagafrettir.is

Ættartréð: Foreldrar Hallberu eru Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna og Hallbera Jóhannesdóttir kennari. Bræður Hallberu eru Þorsteinn, Jóhannes og Magnús Gíslasynir.