Trausti Gylfason, formaður Sundfélags Akraness, var sæmdur Gullmerki Sundsambands Íslands nýverið. Trausti, sem hefur stýrt málum af myndarbrag hjá Sundfélagi Akraness, fékk Gullmerkið fyrir faglega mótsstjórn á Smáþjóðaleikunum á Íslandi 2015 og störf í þágu sundíþróttarinnar á Íslandi.
„Það lætur ekki mikið yfir sér gullmerkið en mér þykir vænt um það. Ég lít á það ekki bara sem viðurkenningu heldur einnig sem hvatningu að vinna frekar fyrir félagið mitt, Sundfélag Akraness og ekki síður ÍA! Maður á ekki að spyrja hvað félagið getur gert fyrir mig heldur á hver og einn að spyrja, hvað get ég gert fyrir félagið mitt,“ skrifar Trausti á fébókarsíðu sína.
Eftirtaldir einstaklingar fengu viðurkenningu á Sundþinginu. Trausti er lengst til vinstri á myndinni.
- Hlín Ástþórsdóttir varaformaður fyrir farsæla 16 ára stjórnarsetu í SSÍ og óeigingjörn störf í þágu sundíþrótta á Íslandi
- Jacky Jean Pellerin landsliðsþjálfari og þjálfari Sundfélagsins Ægis, fyrir gott og óeigingjarnt starf í þágu sundhreyfingarinnar á Íslandi og góðan árangur sundfólks undir hans stjórn á Ólympíuleikum, heimsmeistara- og Evrópumeistaramótum
- Klaus Jürgen-Ohk þjálfari SH fyrir góð störf í þágu sundhreyfingarinnar á Íslandi og góðan árangur sundfólks undir hans stjórn á Ólympíuleikum, heimsmeistara- og Evrópumeistaramótum
- Steindór Gunnarsson fyrrverandi landsliðsþjálfari fyrir að vera óþreytandi í starfi sínu fyrir sund á Íslandi og alltaf tilbúinn til aðstoðar
- Málfríður Sigurhansdóttir fyrir undirbúning og stjórn sundliðsins á Smáþjóðaleikum á Íslandi 2015 og góð störf í þágu sundhreyfingarinnar á Íslandi
- Unnur Sædís Jónsdóttir sjúkraþjálfari fyrir undirbúning og stjórn sundliðsins á Smáþjóðaleikum á Íslandi 2015 og á Ólympíuleikum, heims- og Evrópumótum
- Karl Georg Klein og
- Trausti Gylfason fyrir faglega mótstjórn á Smáþjóðaleikum á Íslandi 2015 og störf í þágu sundíþróttarinnar á Íslandi