Glæsileg Frístundamiðstöð fyrirhuguð við Garðavöll

Golfklúbburinn Leynir mun ganga til samninga við Akraneskaupstað um verkefnið Frístundamiðstöð við Garðavöll. Tillaga þess efnis var samþykkt á fjölmennum félagsfundi sem fór fram í gær í klúbbhúsi Leynis. Á fundinum voru lagðar fram tillögur sem stjórn Leynis hefur unnið að undanfarin tvö ár. Akraneskaupstaður mun byggja frístundamiðstöðina í samráði við Leyni þar sem að núverandi golfskáli er til staðar í dag.

Halldór Stefánsson hefur unnið tillögu fyrir stjórn Leyni, en um er að ræða metnaðarfullar teikningar af tæplega 1000 fermetra húsi, sem skiptist í 660 fermetra jarðhæð og rúmlega 300 fermetra kjallara.

Áætlaður kostnaður við framkvæmdina er 300 milljónir kr. Akraneskaupstaður verður eigandi hússins en Leynir verður umsjónar- og rekstraraðili hússins.

Í kjallara er gert ráð fyrir inniaðstöðu fyrir golfiðkun s.s. púttsvæði og golfhermum ásamt að stöðu fyrir golfbíla. Jarðhæðin samanstendur að veislusal fyrir allt að 200 manns í sæti, setustofu, eldhúsi, salernum, búningsherbergjum, skrifstofum, fundarherbergi og afgreiðslu fyrir golfvöll.

Hér má sjá hvernig Frístundamiðstöðin mun líta út en hér er horft frá bílastæðinu í austurátt.

Gestir Frístundamiðstöðvarinnar geta horft yfir 9. flötina af svölum við húsið og einnig af palli sem snýr í austur.

Hér er horft á Frístundamiðstöðina frá 1, teig Garðavallar.

Gert er ráð fyrir að 200 gestir geti setið til borðs í Frístundamiðstöðinni.

Hér má sjá hvar nýja Frístundamiðstöðin mun rísa en húsið mun ná yfir allt það svæði sem núverandi klúbbhús stendur.

Á fundinum kom fram að Frístundamiðstöðin er hugsuð fyrir starfssemi GL og gesti Garðavallar sem og Akraneskaupstað og aðildarfélög ÍA. Akraneskaupstaður mun eiga húsnæðið og GL mun hafa umsjón með því og sjá um rekstur þess. Áætlað er að bjóða verkefnið út um mitt sumar og hefja framkvæmdir á haustmánuðum að loknu golftímabili. Áætlanir gera svo ráð fyrir að taka jarðhæð í notkun vorið 2018 og að framkvæmdum við kjallara og annan fullnaðarfrágang verði lokið í desember 2018.

Í lok félagsfundar fór framkvæmdastjóri Leynis, Guðmundur Sigvaldason, yfir rekstur GL og kom fram að völlurinn hefði komið vel undan vetri en sökum veðurs í lok apríl og byrjun maí hefði völlurinn opnað seinna en áætlað var.

Framkvæmdir við 4. flötina gengu vel og munu án efa bæta leik kylfinga og auka skemmtun félagsmanna og gesta. Endurnýjun véla hefur tekist vel undanfarin ár og er unnið að frekari endurnýjun véla um þessar mundir. Fjölgun félagsmanna er um tæp 8% sé tekið mið af stöðunni á sama tíma fyrir ári. Spilaðir hringir eru milli 30-40% færri og má án efa tengja það því að völlurinn opnaði seinna en gert var ráð fyrir og að veður var óhagstætt.

Birgir Leifur Hafþórsson nýr íþróttastjóri hefur farið vel af stað og með góðri aðstoð golf leiðbeinenda sem með honum starfa hefur íþróttastarfið verið blómlegt undanfarnar vikur sem skilaði sér í góðum árangri unglinga um síðastliðna helgi á fyrsta GSÍ móti sumarsins. Einnig kom fram að fjárhagur GL er sterkur um þessar mundir og áætlanir að standast. Samstarfsaðilinn sem hefur með veitingasölu í golfskála að gera hefur byrjað vel og gestir ánægðir með vöruframboð.

Vel var mætt á félagsfundinn og má áætla að fundinn hafi sótt milli 40-50 félagsmenn.