Farsímafyrirtækið Nova stendur fyrir tónleikum neðan við Stein á Esjunni en tónleikarnir áttu að fara fram í kvöld, fimmtudaginn 8. júní klukkan 18.00. Tónnleikunum hefur verið frestað fram til morgundagsins vegna hvassviðris á Esjunni.
Úrvalslið listamanna kemur fram á tónleikunum en plötusnúðurinn Þura Stína sér um að hita viðstadda upp áður en rapparar taka við en fyrstir í röðinni eru Úlfur Úlfur, næstur Aron Can og sá þriðji Emmsjé Gauti. Það verður því mikið um hressandi tóna á fjallinu og eru tónleikagestir hvattir til að koma vel búnir til að njóta sín sem best.
Hægt verður að ganga upp að tónleikastaðnum en fyrir þá gesti sem vilja fljúga verður þyrluþjónustan Helo með þyrluferðir upp og kostar ferðin upp kr. 6500,- og kr. 6500,- niður. Ferðin hvora leið kostar kr. 5500,- ef greitt er með AUR appinu en tónleikagestir sem ætla að nýa sér þyrluna eru hvattir til að kaupa miða fyrirfram inni á www.tix.is.
„Þetta er í fjórða skipti sem við höldum tónleika á Esjunni og það hefur alltaf tekist mjög vel og mikil ánægja hjá tónleikagestum og skipuleggjendum. Við vonumst auðvitað til að sjá sem flesta og hvetjum fólk til að taka alla fjölskylduna og vini með á fjallið. Svo ef að einhverjir eru með erlenda gesti er þetta góð leið til að sýna þeim fallegt umhverfi, flott tónlistarfólk og Íslendinga í stuði,“ segir Magnús Árnason markaðsstjóri Nova.
Áætlað er að tónleikunum ljúki klukkan 21.30 og lofar veðurspáin fyrir kvöldið góðu. „Það er þó alltaf vissara að hafa hlýju fötin með og auðvitað koma í góðum skóm. Þetta verður hörkufjör fyrir allan aldur,“ segir Magnús.