Glæsilegur aðbúnaður hjá Eiríki Jóns og áhöfn hans á Akurey

Akurey AK 10 er nýr ísfisktogari HB Granda og er von á skipinu í heimahöfn á Akranesi 21. eða 22. júní n.k. Skipið var sjósett í ágúst á síðasta ári við skipasmíðastöðina Celiktrans í Istanbúl í Tyrklandi. Skagamaðurinn Eiríkur Jónsson verður skipstjóri á Akurey en hann var einnig skipstjóri á Sturlaugi Haraldssyni. Akurey mun taka við hlutverki Sturlaugs í skipaflota HB Granda.

Unnið hefur verið í að ljúka smíði skipsins frá þeim tíma. Áður hefur Celikstrans smíðað uppsjávarskipin Venus NS og Víking AK fyrir HB Granda.

Helstu stærðir skipsins eru sem hér segir:

Heildarlengd: 54.75 m.
Breidd: 13.50 m.
Særými u.þ.b. 1830 tonn.
Stærð á lest 815 rúmmetrar.
Stærð aðalvélar 1799 kW.
Þvermál skrúfu 3800 mm.

Klefar eru fyrir 17 manna áhöfn. Allir eru þeir eins manns nema einn sem er stærri.

Eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan þá er skipið glæsilegt, og það fer örugglega mjög vel um áhöfnina í þessu glæsilega skipi.

Jón Frímann Eiríksson, stýrimaður um borð í Akurey og sonur Eiríks skipsstjóra skrifaði eftirfarandi færslu á fésbókarsíðu sína í gær.

„Jæja þá er fyrri hluta ferðar lokið, settum Denna í Brimúnu í land á Gíbraltar í gær. Alger snilld að hafa hann með til að leggja lokahönd og kenna okkur á tækin í skipinu. Systurnar Sól og Blíða hafa leikið við okkur og vonandi verður það áfram. Skipið er frábært og tilhlökkun mikil að fara fiska á þetta tæki. Sjómannadagshelgin fór vel í okkur Stjáni dekraði við okkur í mat.“

Hér er áhöfnin sem siglir Akurey til Íslands frá Tyrklandi. Eiríkur skipstjóri er lengst til vinstri.