Kylfingar úr Golfklúbbnum Leyni náðu fínum árangri á mótum á Íslandsbankamótaröð unglinga um síðustu helgi. Á sjálfu Íslandsmótinu í holukeppni náði Axel Fannar Elvarsson bronsverðlaunum í flokki 19-21 árs. Þetta er í fyrsta sinn sem keppt er í þessum aldursflokki á Íslandsbankamótaröðinni og voru flestir af bestu kylfingum landsins í þessum aldursflokki á meðal keppenda. Axel Fannar sigraði Birgi Björn Magnússon úr Keili í leiknum um þriðja sætið í bráðabana í spennandi leik.
Atli Teitur Brynjarsson sigraði í flokki 15-18 ára á Áskorendamótaröð unglinga á Gufudalsvelli í Hveragerði. Mótaröðin er ætluð þeim sem vilja bæta keppnisreynslu sína áður en haldið er á sjálfa Íslandsbankamótaröðina. Ingimar Elfar Ágústsson varð þriðji á þessu móti í flokki 14 ára og yngri.
Axel Fannar Elvarsson var sáttur með bronsið.
Bára Valdís Ármannsdóttir sigraði í flokki 15-18 ára og Kristín Vala Jónsdóttir sigraði í flokki 14 ára og yngri. Alls átti Leynir ellefu keppendur á Áskorendamótaröðinni og fjórir þeirra unnu til verðlauna.
Atli Teitur ásamt Jussi Pitkänen afreksstjóra GSÍ og Einari Lyng framkvæmdastjóra GHG.
Bára Valdís er hér fyrir miðju ásamt verðlaunahöfum í flokki 15-18 ára.
Kristín Vala er hér fyrir miðju ásamt verðlaunahöfum í flokki 14 ára og yngri.
Ingimar Elfar er hér ásamt Jussi Pitkänen afreksstjóra GSÍ og Einari Lyng framkvæmdastjóra GHG.