Það voru glæsileg tilþrif sem sáust á Álmanninum sem fram fór á miðvikudaginn á Akranesi. Verkefnið er samstarfsverkefni nokkurra aðildarfélaga ÍA. Keppnin tókst gríðarlega vel og margir tóku þátt við frábærar aðstæður. Sólrún Sigþórsdóttir frá Akranesi sigraði í kvennaflokki og Ingvar Hjartarson í karlaflokki – en bæði settu þau ný brautarmet.
Í Álmanninum er keppt í hjólreiðum, hlaupi og sjósundi, bæði í einstaklings – og liðakeppni. Farið er um náttúruperlur á Akranesi, þ.e. Langasand og Akrafjall. Sjóbaðsfélag Akraness skipulagði keppnina ásamt Björgunarfélagi Akraness og Íþróttabandalagi Akraness.
● Hjólað frá bílastæð við Akraneshöll að Akrafjalli. Leiðin er u.þ.b. 5,5 km. 1,3 km. á malbiki og
4,2 km. á möl.
● Haldið upp á Háahnúk á Akrafjalli sem er í um 550 metra hæð og skrifað í gestabók.
● Frá Akrafjalli var hjólað aftur að Langasandi (5,5 km).
● Á Langasandi eru syntir um 400 metrar meðfram ströndinni.
Fjölmargir áhorfendur lögðu leið sína á Langasand í gærkvöld. Siglingafélagið Sigurfari sá um að manna kajaka til aðstoðar sundmönnum og Knattspyrnufélagið Kári sá um brautargæslu.
Fleiri myndir má nálgast á fésbókarsíðu ÍA.